Katrín Oddsdóttir formaður Stjórnarskrárfélagsins bendir á í færslu á Facebook í dag að stefnubreyting hafi orðið hjá Vinstri grænum varðandi nýju stjórnarskrána.
Vísar hún í ályktun landsfundar VG sem birt var í gær. „En í 30. málsgrein má síðan finna nýja stefnu flokksins um stjórnarskránna. Þar segir: „Halda þarf áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd hljóti afgreiðslu Alþingis en einnig þarf að ráðast í tímabærar breytingar á öðrum köflum. Endurskoða þarf mannréttindakafla stjórnarskrárinnar meðal annars með hliðsjón af réttinum til menntunar, heilbrigðis og lífsviðurværis.”,“ skrifar hún.
Katrín ber saman þessa stefnu við stefnu flokksins í sama máli árið 2017 en þá var nýja stjórnarskráin í stefnunni. „Ljúkum þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs,” sagði í stefnunni frá árinu 2017.
Skárra að „þau séu loksins heiðarleg“
Veltir Katrín fyrir sér þessari kúvendingu. „Eftir þetta kjörtímabil þyrfti það svo sem ekki að koma neinum á óvart að VG vilji ekki nýju stjórnarskrána og kannski er skárra að þau séu loksins heiðarleg með þetta frekar en þykjast vilja virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að næla sér í atkvæði fyrir kosningar.“
Katrín segist bera virðingu fyrir nöfnu sinni, Katrínu Jakobsdóttur formanni VG. „Í mínum huga er þó ljóst að ef kjósandi vill leggja áherslu á að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012 um að leggja nýju stjórnarskrána til grundvallar sem stjórnarskrá Íslands, ætti hann alls ekki að ráðstafa sínu atkvæði til VG.“
LAND TÆKIFÆRANNA? Nú keyrir Sjálfstæðisflokkurinn á nýju (og ögn bandarísku) kjörorði sem er “Land tækifæranna”....
Posted by Katrín Oddsdóttir on Sunday, August 29, 2021