Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hagnaðist um 2,1 milljarð króna á árinu 2014. Það er litlu meira en félagið hagnaðist um árið á undan þegar hagnaðurinn nam 1,7 milljörðum króna. Samanlagður hagnaður skagfirska atvinnurisans á árunum 2011 til 2014 er 8,6 milljarðar króna.
Greint er frá afkomu kaupfélagsins á síðasta ári á fréttasíðunni Feyki.is, sem hefur ársskýrslu Kaupfélags Skagfirðinga undir höndum. Þar kemur fram að hún hafi verið kynnt á aðalfundi kaupfélagsins sem fór fram í Selinu, matsal Kjötafurðastöðvar KS á Sauðárkróki, síðasta laugardag.
Heildarvelta KS á síðasta ári var velta KS um 27 milljarðar króna, sem er um 1,5 milljörðum króna minna en árið á undan. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, segir í inngangsorðum í ársskýrslunni að lækkunin stafi af minni veltu í sjávarútvegi og samdrætti í sölu kjötafurða.
Eiginfjárhlutfall Kaupfélags Skagfirðinga er 68 prósent og eigið fé fyrirtækisins 23,7 milljarðar króna.
Ótrúlega umsvifamikið fyrirtæki
Kaupfélag Skagfirðinga er eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi. Stærsta eign þeirra er 100 prósent hlutur í útgerðarfélaginu FISK-Seafood á Sauðarkróki, en það er fimmta stærsta útgerðarfélag landsins. FISK-Seafood á einnig, ásamt Samherja, 70 prósent hlut í Olíufélagi Íslands. KS á einnig tíu prósent hlut í Mjólkursamsölunni og Vogabæ, móðurfélag Mjólku. Auk þess rekur kaupfélagið meðal annars mjólkurafurðastöð, kjötafurðastöð, Kjarnann þjónustuverkstæði, dagvöru- og ferðamannaverslun í Skagafirði og verslunina Eyri. Þá á kaupfélagið hlut í Fóðurblöndunni ehf. Listinn yfir eignir er ekki tæmandi.