Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir það áhyggjuefni hversu lítið gagnsæi sé í kringum afgreiðslu undanþága frá gjaldeyrishöftum, "einkum ef haft er í huga hversu mikilvægar ákvarðanir er um að ræða sem geta haft verueg áhrif á umsækjendur og íslenskt efnahagslif, eins og nýleg dæmi sanna". Þetta kemur fram í grein sem Páll ritar í Markaðinn í dag.
Nýlega dæmið sem Páll vísar er til eru áform Promens um að flytja höfuðstöðvar sínar út landi ef tekst að ganga frá sölu á öllu hlutafé þess til breska fyrirtækisins RPC. Helsta ástæða þess sem núverandi eigendur Promens, Framtakssjóður Íslands og félag í eigu Landsbankans, hafa gefið fyrir sölunni er sú að Promens hafi ekki fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftum og því ekki getað vaxið í takt við alþjóðlega samkeppni.
Ákvörðun Promens hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af Guðna Ágústssyni, fyrrum formanni Framsóknarflokksins. Hann hefur kallað eftir því að lög verði endurskoðuð vegna þessa. Gagnrýnin kemur í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á þingi að ekki væri allt sem sýndist í fullyrðingum þess efnis að Promens hafi flutt höfuðstöðvar sínar úr landi vegna haftaumhverfis. Fyrirtækið hafi á liðnum árum fengið undanþágur frá gjaldeyrishöftum en að seðlabankinn hafi ekki viljað niðurgreiða fjárfestingar þess erlendis. Promens segist hins vegar einungis hafa sótt um hefðbundna undanþágu frá fjármagnshöftum. Þar sem beiðnin er ekki opinber getur almenningur ekki lagt sjálfstætt mat á hvað sé rétt í málinu né hvort jafnræðis sé gætt við veitingu undanþágubeiðna.
Höfuðstöðvar Promens verða fluttar úr landi vegna þess að fyrirtækið fékk ekki ákveðnar undanþágur frá fjármagnshöftum.
Ótvíræður ávinningur
Í grein sinni í dag segir Páll að Seðlabankinn telji gagnsæi takmörkunum háð vegna þagnarskyldu gagnvart umsækjendum. Það hafi verið reynt að koma til móts við kröfu um aukið gagnsæi með birtingu upplýsinga um almenna framkvæmd undanþágubeiðna á heimasíðu bankans, en umsækjendum sé engu nokkur vandi á höndum við mat á því hvort jafnræðis sé gætt í ákvörðunum bankans. "Einfalt væri að draga úr tortryggni, t.d. með því að bjóða upp á fljótvirka kæruleið eins og Viðskiptaráð hefur lagt til. Einnig mætti hugsa sér að óháðum aðila á vegum stjórnvalda væri falið að fara kerfisbundið yfir ákvarðanir er varða stærri hagsmuni og aðrar ákvarðanir valdar af handahófi til að leggja mat á hvort gætt væri jafnræðis í afgreiðslu undanþágubeiðna. Á þessu sviði sem öðrum er gagnsæið krefjandi, en ávinningurinn ótvíræður."