Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og dósent við Háskóla Íslands, segir það ekki skrýtið þótt einhverjir skynji launaþróun í landinu öðruvísi en vísitala Hagstofunnar yfir kaupmátt launa gefi til kynna. Í dag eru landsmenn að greiða upp lán, öfugt við mikla lántöku fyrir hrunið, sem þýðir minna svigrúm til neyslu. Almennt fer þó staða heimila batnandi og hefur gert frá árinu 2010, segir Gylfi.
Í gær birtist frétt á vef Kjarnans um kaupmátt launa sem hefur aldrei mælst hærri en í janúar 2015. Vísitala kaupmáttar launa hefur hækkað um 5,5 prósent á síðustu tólf mánuðum. Það þýðir, eða ætti að þýða, að launafólk getur að jafnaði keypt 5,5 prósentum meira af vörum og þjónustu fyrir launin sín í dag en það gerði fyrir ári síðan.
Mörgum fannst fréttin ekki koma heim og saman við eigin raunveruleika. Gylfi Magnússon var því spurður að því hvort það geti virkilega verið að kaupmáttur sé í dag meiri en hann var fyrir efnahagshrunið 2008.
Misjafnt eftir hópum
„Það er út af fyrir sig ekkert skrýtið þótt einhverjir, og jafnvel margir, skynji launaþróun öðruvísi en vísitölu kaupmáttar launa. Hluti skýringarinnar liggur í því að launataxtar og ráðstöfunartekjur eru ekki það sama. Það munar raunar talsverðu vegna þess að fjármagnstekjur voru mun hærri í bólunni, en dreifðust raunar mjög misjafnt. Jafnframt dróst yfirvinna talsvert saman í krísunni,“ segir Gylfi í svari við skriflegri fyrirpurn Kjarnans og Stofnunar um fjármálalæsi.
Gylfi segir það sama gilda um laun og fjármagnstekjur, þau séu misjöfn milli hópa og þótt meðal-launataxtar hækki örar en verðlag þá eigi það ekki við um alla hópa. Sama gildi um útgjaldahliðina. „Þeir sem eru á leigumarkaði, og eru ef til vill að reyna að skrapa saman fyrir fyrsta húsnæði, eiga mun erfiðara uppdráttar en þeir sem búa í eigin húsnæði, þótt skuldsetningin skipti auðvitað máli fyrir þann hóp. Vísitala neysluverðs [sem mælir verðbólgu] sýnir ekki endilega mjög vel útgjaldaþróun hjá öllum, hún er líka meðaltal eins og launavísitalan,“ segir Gylfi en vísitala kaupmáttar launa ræðst af launaþróun (þ.e. launavísitölunni) annars vegar og verðbólguþróun hins vegar. „Frávik frá meðaltali skipta ekki minna máli en meðaltölin sjálf,“ segir Gylfi.
Neyslan var fjármögnuð með lánum
Vísitala kaupmáttar launa var í methæðum frá janúar 2007 til mars 2008, þegar hún stóð í kringum 120 stig. Eftir mikla lækkun samhliða efnahagskrísunni, þá tók vísitalan að hækka á ný um mitt ár 2010 og hefur hækkað ört síðustu mánuði. Eins og fyrr segir hefur hún aldrei verið hærri en í dag, eða 121,9 stig.
Þýðir þetta að kaupmáttur landsmanna er, að meðaltali, meiri í dag en hann var árið 2007?
„Rétt er að hafa í huga að í bólunni jókst mjög skuldsetning heimila, það er þau voru að fjármagna neyslu að einhverju marki með lánum [en ekki launum]. Nú eru heimilin þvert á móti að meðaltali að greiða niður lán, sem þýðir vitaskuld að svigrúm til neyslu er minna en ella, og fólk skynjar það væntanlega í einhverjum mæli sem lægri tekjur, þótt þetta sé aukinn sparnaður frekar en lægri tekjur,“ segir Gylfi og bætir við að lokum að allt þetta breyti því ekki að staða heimila fari almennt batnandi og hafi gert frá árinu 2010. „En á meðan það eru væntingar um meiri eða örari bata þá verða einhverjir, jafnvel margir, óánægðir,“ segir hann.
Munurinn á launum og ráðstöfunartekjum
Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega þróun kaupmáttar launa. Kaupmáttur sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu er hægt að kaupa fyrir laun. Óbreyttur kaupmáttur frá fyrra ári þýðir að hægt er að kaupa sambærilega vörukörfu og fyrir ári. Með þessum hætti er litið til launaþróunar í landinu að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, þ.e. verðbólgunnar. Lág verðbólga á Íslandi undanfarið ár auk launahækkana hefur þannig áhrif til hækkunar á vísitölu kaupmáttar launa.
Árlega birtir Hagstofan síðan vísitölu kaupmáttar ráðstöfunartekna. Þar er tekið tillit til fleiri þátta en heildarlauna, svo sem annarra tekna og tilfærslna eins og barna- og vaxtabóta, að frádregnum sköttum. Litið er til skattaframtala við útreikning kaupmáttar ráðstöfunartekna og eru nýjustu tölur Hagstofunnar fyrir árið 2013.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir voru á RÚV. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.