Í fyrsta sinn síðan í lok árs 2012 og byrjun árs 2013 gerðist það í ár að kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst saman tvo ársfjórðunga í röð. Á þriðja ársfjórðungi dróst hann saman um 6,1 prósent, sem er mesti samdráttur sem hefur mælst á þremur mánuðum frá lokum árs 2010.
Ráðstöfunartekjur eru þeir peningar sem standa eftir þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá launum viðkomandi og kaupmáttur þeirra lýsir því hvað hver getur keypt fyrir þær tekjur. Þegar kaupmátturinn dregst saman þá getur viðkomandi keypt minna fyrir krónurnar sem hann hefur til ráðstöfunar í hverjum mánuði.
Þetta var annar ársfjórðungurinn í röð sem kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst saman, en hann var mínus 2,7 prósent á öðrum fjórðungi ársins 2022. Það er í fyrsta sinn síðan í lok árs 2012 og byrjun árs 2013 sem kaupmáttur dregst saman tvo ársfjórðunga í röð og samdrátturinn í kaupmætti á síðustu mánuðum er sá mesti sem mælst hefur síðan í lok árs 2010, eða í næstum tólf ár.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um tekjuskiptingaruppgjör heimilisgeirans.
Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er hins vegar áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um áðurnefnd 6,1 prósent á tímabilinu en vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkaði um 9,7 prósent á sama tímabili.
Vaxtagjöld vigta inn í útgjöldin
Í tölunum eru vaxtagjöld heimilanna dregin frá tekjum við útreikning ráðstöfunartekna. Þannig er í tölunum tekið tillit til áhrifa vaxtahækkana á heimilin. Miklar stýrivaxtahækkanir hafa hækkað vaxtagjöld heimila griðarlega á undanförnum mánuðum, en vextirnir hafa farið úr 0,75 prósent í maí í fyrra í sex prósent nú.
Í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins af birtingu talnanna er ekki minnst á 6,1 prósent samdrátt í kaupmætti ráðstöfunartekna á síðasta ársfjórðungi heldur sagt að af þeim megi „ráða að ráðstöfunartekjur séu enn með mesta móti þrátt fyrir vaxtahækkanir og kaupmáttur mikill þrátt fyrir hækkun verðbólgu.“
Gera megi ráð fyrir að tekjur haldi áfram að vaxa í kjölfar launahækkana sem taki gildi með nýjum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og aðgerða stjórnvalda til stuðnings viðkvæmum hópum, hækkunar húsnæðisbóta og styrkingar barnabótakerfisins. „Tölur Hagstofunnar benda til þess að þrátt fyrir hækkun vaxta undanfarið séu vaxtagjöld heimilanna enn lág í sögulegu samhengi. Með breytingum á vaxtabótakerfinu sem taka gildi á næsta ári munu fleiri heimili njóta vaxtabóta en áður.“