Slitastjórn Kaupþings og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem situr í henni, hafna ásökunum sem Vincent Tchenguiz hefur borið á þá og segja þær með öllu haldlausar. Vincent Tchenguiz tilkynnti í gær að hann hefði höfðað mál gegn slitabúi Kaupþings, Jóhannesi Rúnari, breska endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton og tveimur strafsmönnum þess vegna tjóns sem hann hefði orðið fyrir þegar efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), rannsakaði lánveitingar til hans og bróður hans, Robert Tchenguiz,sem var stærsti skuldari Kaupþings við fall bankans. Vincent Tchenguiz fer fram á 2,2 milljarða punda, um 430 milljarða króna, í skaðabætur vegna þess tjóns. Málið verður höfðað fyrir breskum dómstólum.
Í tilkynningu á heimasíðu slitabús Kaupþings kemur fram að þrátt fyrir að upplýsingar um málshöfðunina hafi verið sendar fjölmiðlum hafi hvorki Kaupþing né Jóhannes Rúnar fengið upplýsingar eða gögn um kröfurnar og því sé þeim ómögulegt að taka afstöðu til málsins í smáatriðum. „Það er ekki stefna Kaupþings að fjalla um einstök viðskiptatengd málefni en þó má segja að þær ásakanir sem hafa komið fram á hendur Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni hrl. eru með öllu haldlausar“.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem situr í slitastjórn Kaupþings.
Sagði Kaupþing hafa hótað sér
Vincent Tchenguiz var handtekinn í aðgerð SFO í mars 2011 vegna viðskipta félaga sem hann stýrir við Kaupþing. Robert bróðir hann var líka handtekinn í tengslum við sömu rannsókn. Í viðtali við greinarhöfund, sem birtist í Fréttablaðinu 21. júli 2012, sagði Tchenguiz að Kaupþing hefði hótað sér í aðdraganda handtökunnar með því að segja að það væri „aðrar leiðir“ til að ná honum. Hann útskýrði ekki nánar hvaða leiðir það ættu að vera né vildi hann tilgreina hver hefði lagt fram þessar hótanir. Þar sagðist hann einnig telja að gögnin sem rannsókn SFO hefði byggst á hafi, að minnsta kosti að hluta til, komið frá ráðgjafa Kaupþings, Grant Thornton.
Rannsókn SFO á Tchenguiz var hætt í júní 2011. Tchenguiz-bræðurnir höfðuðu í kjölfarið mál á hendur SFO og kröfðust um 200 milljóna króna, tæplega 1,4 milljarða króna, í skaðabætur vegna rannsóknarinnar. Þeir komust síðar að samkomulagi um bætur. Ekki hefur verið upplýst frekar um innihald þess samkomulags.
Það er fjarri því eina samkomulagið sem Vincent Tchenguiz hefur gert á undanförnum árum. Í september 2011 var greint frá því að hann hefði náð samkomulagi við slitabú Kaupþings um að falla frá öllum kröfum sínum á hendur þrotabúinu. Við það féllu fjölmörg einkamál sem hann rak gegn búinu í Bretlandi og Íslandi niður, í þeim hafði sjóður í eigu Tchenguiz-fjölskyldunnar metið kröfur sínar á hendur Kaupþingi á um 1,5 milljarða punda, um 290 milljarða króna. Kaupþing hafnaði öllum kröfum þeirra í búið. Í viðtalinu frá því í júlí 2012 sagði Tchenguiz að hann mætti ekki tala neitt um innihald samkomulagsins, hann mætti ekki tala um hversu mikið hann teldi að Kaupþing hefði kostað sig né hvað samkomulagið fól í sér fyrir Kaupþing.