Slitastjórn Kaupþings hefur sótt um undanþágu frá fjármagnshöftum hjá Seðlabanka Íslands. Beiðni slitastjórnarinnar var send Seðlabankanum þann 4. september síðastliðinn, samkvæmt tilkynningu á vef Kaupþings. Í henni segir að undanþágan sé nauðsynleg svo gera megi upp gagnvart kröfuhöfum utan Íslands og til að hægt sé að uppfylla samkomulag sem gert var í tengslum við áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.
Samkomulag milli stærstu kröfuhafa Kaupþings og stjórnvalda var undirritað í júní síðastliðnum, á sama tíma og áætlun um losun fjármagnshafta var kynnt. Þá samþykktu kröfuhafarnir að gangast við ákveðnum skilyrðum stjórnvalda, svokölluðum stöðugleikaskilyrðum, sem meðal annars varða söluferli Arion banka og afsal innlendra eigna til ríkissjóðs og eiga að tryggja efnahagslegan stöðugleikan við uppgjör Kaupþings og útgreiðslu krafna.
Í tilkynningu á vef Kaupþings segir að slitastjórn muni upplýsa kröfuhafa um framvindu málsins.