Vefurinn Keldan, sem fyrirtækið Kóði á og rekur, býður nú upp á nýja þjónustu sem nefnist lykiltölur fyrirtækja. Þjónustan veitir aðgang að helstu tölum og rekstrarupplýsingum stærstu fyrirtækja landsins, til dæmis veltu, hagnað, eignir, hlutafé, starfsmannafjölda o.fl. „Það liggur fyrir að það er áhugi innan viðskiptalífsins að hafa heildaryfirlit yfir stærstu fyrirtæki landsins enda hafa slíkar upplýsingar margvíslegt notagildi. Með þessari þjónustu Keldunnar verða upplýsingarnar mun aðgengilegri en áður og er það í takt við þá þróun að hafa hlutina lifandi netinu,“ segir Örvar Þór Ólafsson, markaðsstjóri Kóða.
Upplýsingarnar um stærstu fyrirtækin eru aðgengilegar öllum og birtast á Keldan.is undir liðnum lykiltölur. Hægt verður að raða listanum á mismunandi hátt og flokka hann eftir atvinnugreinum svo eitthvað sé nefnt. Í dag eru yfir 200 stærstu fyrirtæki Íslands á listanum og verður fleiri bætt við á næstu vikum.
Lykiltölur fyrirtækja eru sóttar úr ársreikningum sem viðskiptavinir Keldunnar hafa keypt í gegnum Kelduna, en Keldan hefur miðlað ársreikningum frá RSK um árabil. Það var hópur nemenda við Háskólann í Reykjavík sem vann lokaverkefni fyrir Kelduna og þróaði forrit til að vinna gögn sjálfvirkt úr skönnuðum ársreikningum. Til þess var m.a. notast við svokallaðan vélrænan lærdóm (machine learning techniques). Hluti af gögnunum sem kerfið vinnur er nú orðinn aðgengilegur á www.keldan.is.
Ávinningurinn af því að hafa upplýsingar um lykiltölur fyrirtækja á netinu er margvíslegur að sögn Örvars, en notandinn getur nálgast upplýsingarnar hvar og hvenær sem er, flokkað fyrirtækin eftir mismunandi lykiltölum, borið saman rekstrarniðurstöður frá ári til árs með myndrænni framsetningu, svo eitthvað sé nefnt.