Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar lagði í gærdag fram bókun þar sem lagt er til að gildandi deiliskipulag á svæðinu milli Laugavegs og Skúlagötu, Vitastígs og Barónsstígs verði numið úr gildi. Gamla deiliskipulagið gerir ráð fyrir stórfelldu niðurrifi gamallla timburhúsa við Laugaveg og Hverfisgötu og á baklóðum við Vitastíg. Nýja tillaga meirihlutans, sem vísað er til borgarstjórnar, kveður á um að flest húsanna haldi sér. Í stað þriggja 15 hæða turna við Skúlagötu áður er nú gert ráð fyrir einum 18 hæða turni. Þá er fallið frá heimilt til að rífa niður Skúlagötu 28, þar sem gistiheimilið Kex er til húsa, og þess í stað veitt heimild til að byggja tvær hæðir ofan á húsið. Fulltrúi Bjartrar framtíðar, Magnea Guðmundsdóttir, sat hjá við afgreiðslu bókunarinnar.
„Nýja tillagan kveður á um að flest þessara húsa haldi sér auk þess sem lögð er sérstök áhersla á að styrkja timburhúsaþyrpingu við Vitastíg og tengja hana, með nýjum stíg, við Laugaveg, Hverfisgötu og Bjarnaborg,“ segir í bókuninni. Þrátt fyrir að tillagan geri ráð fyrir átján hæða turni þá er lagst gegn því í bókuninni og sagt að hann ætti að vera sextán hæðir að hámarki. „Við teljum að Skipulagstillagan sé mun betri en gildandi deiliskipulag. Engu að síður teljum við að byggingarmagn við Skúlagötu sé of mikið. Við leggjumst gegn því að turninn verði 18 hæðir og teljum að hann eigi að vera 16 hæðir að hámarki og ekki meira en 60 metrar á hæð frá sjó.
Við teljum ennfremur mjög mikilvægt að nokkrar arkitektastofur, verði fengnar til að hanna byggingarreitina á svæðinu til að ýta undir fjölbreytileika og mismunandi byggðamynstur á ólíkum og misgömlum reitum.
Við teljum einnig nauðsynlegt að tryggt verði að húsin milli Hverfisgötu og Laugvegs verði íbúðarhús og einnig húsin sem standa norðanmegin við Hverfisgötu og stölluðu húsin neðst við Vitastíg. Við teljum hins vegar eðlilegt að hafa meiri sveigjanleika í nýtingu húsanna við Skúlagötu,“ segir í bókuninni.
Sat hjá - Borgin bundin fyrri ákvörðunum
Fulltrúi Bjartar framtíðar, Magnea Guðmundsdóttir arkitekt, sat hjá við afgreiðsluna og bókaði meðal annars að ákjósanlegra hefði verið að draga meiri lærdóm af eldra skipulagi við Skúlagötu, þar sem háir turnar loka inni eldri byggð frá sjávarsíðunni og taki ekki tillit til samspils byggðar og landslags þar fyrir. „Gríðarlegt byggingarmagn leiðir af sér djúpa kroppa þar sem erfitt er að koma dagsljósi að bæði í innri og ytri rýmum og dregur verulega úr gæðum þeirra. Hægt hefði verið að draga úr þessum áhrifum með því að dreifa betur byggingamagni beggja vegna Hverfisgötu,“ segir í bókun hennar.
Í samtali við Kjarnann segir Magnea að boðaðar breytingar á skipulagi svæðisins séu að mörgu leyti góðar. Það sé hins vegar hennar mat að byggingarmagnið á Skúlagötu sé enn of mikið. Því hafi hún ákveðið að sitja hjá en þar sem margt gott felist í breytungum þá hafi hún ekki kosið á móti bókun ráðsins. Hún gagnrýnir það að engin fyrningarákvæði séu til staðar þannig að skipulagsráð sé ekki bundið fyrri ákvörðunum um byggingarmagn, eins og raunin er í dag. „Við sitjum uppi með eldgamalt skipulag. Það voru allt aðrar hugmyndir uppi fyrir um tíu árum síðan, þegar það átti að bjarga miðborginni með því að byggja þarna verslunarmiðstöð. Þau sjónarmið eru ekki lengur gild. Samt sitjum við uppi með þetta byggingarmagn, sem er slæmt,“ segir Magnea.