Kínverjar felldu í dag gengi gjaldmiðil landsins, kínverska júnaið, annan daginn í röð í því skyni að auka virði útflutningsafurða. Kínverski Seðlabankinn hefur ekki fellt gengið svona duglega í tvo áratugi, eða frá því árið 1994.
Stefnubreyting Kínverja kom á óvart og hafa verðbréfa- og gjaldeyrismarkaðir víða um heim, einkum í Asíu, fengið á sig skell. Gengisfellingin bjó víða til söluþrýsting á hlutabréfamörkuðum og helstu vísitölur lækkuðu um allt að þrjú prósent á mörkuðum í Asíu. Þróunin hefur víðast verið í sömu átt, bæði á mörkuðum í Evrópu og í Bandaríkjunum, og er helst rakið til gengisfellingar Kínverja.
Í umfjölliun BBC er farið yfir mögulega sigurvegara og tapara gengisfellingarinnar. Þeir sem eru sagðir munu hagnast eru meðal annars kínverskir útflutningsaðilar og ferðamenn á leið til Kína. Veikara júan mun aftur á móti hækka kostnað margra kínverskra fyrirtækja í formi hærri vaxta á erlendum skuldum, ekki síst hjá fjármálafyrirtækjum, auk þess sem flutningsaðilar á borð við flugfélög og skipafélög munu tapa vegna dýrari kaupa á olíu í dollurum.