Flestum hefur verið ljóst nokkuð lengi að kínversk fyrirtæki og stjórnvöld hafa haft töluverðan áhuga á Íslandi. Þann 15. apríl 2013 var til að mynda undirritaður fríverslunarsamningur milli þjóðanna, sem var fyrsti slíki samningurinn sem Kína hefur gert við vestrænt ríki.
Kínverjar hafa ekki síst haft áhuga á Íslandi sem nokkurs konar gátt inn á norðurslóðir. Í umfjöllun Economist, sem birtist í kjölfar undirskriftar hins fordæmalausa fríverslunarsamnings, var til að mynda vitnað sérstaklega til mats sérfræðinga kínverskra stjórnvalda sem héldu þessu fram. Það vakti líka athygli þegar kínverska sendiráðið var stækkað mjög eftir að það keypti 4.200 fermetra húsnæði við Skúlagötu í janúar 2010. Sendiráðið er eitt stærsta sendiráð sem Kínverjar reka í Evrópu og eitt það fjölmennasta sem rekið er hér á landi.
Fyrsta stóra fjárfesting kínverskra aðila hérlendis var í janúar 2011 þegar þarlent fyrirtæki keypti járnblendiverksmiðjuna Elkem við Grundartanga. Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, staðfesti, í viðtali við Stöð 2 í nóvember 2012, að kínversk stjórnvöld hefðu margoft lýst yfir áhuga á að efla skipaflutning um Íslands og vilja til að koma að uppbyggingu hafnarmannvirkja hérlendis. Össur sagði að Kínverjar sæju Ísland fyrir sér sem miðstöð í skipaflutningum um norðurslóðir í framtíðinni. Þá er kínverska fyrirtækið CNOOC, sem er eitt stærsta fyrirtæki heims og alfarið í eigu kínverska ríkisins, hluti af einum þeirra hópa sem fékk afhent sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu.
Á síðustu vikum hafa kínversku áhrifin aukist enn frekar. Fyrst var tilkynnt um að kínverska fyrirtækið China Nonferrous Metal Industry´s Foreign Engineering and Construction (NFC) hefði undirritað viljayfirlýsingu um fjármögnun á byggingu 120 þúsund tonna álvers við Hafurstaði í Skagabyggð. Degi síðar var greint frá því að kínverska félagið Gelly Group ætli að fjárfesta í íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International fyrir sex milljarða króna. Við bætist að kínverskir fjárfestar hafa verið mjög áhugasamir um að kaupa Íslandsbanka og undirrituðu meðal annars viljayfirlýsingu þess efnis í febrúar síðastliðnum. Búist er við að bankinn verði seldur á þessu ári.
Að endingu er auðvitað nauðsynlegt að minnast á að kínversk knattspyrnulið eru farin að kaupa íslenska knattspyrnulandsliðsmenn í kippum, nú síðast besta knattspyrnumann þjóðarinnar fyrr og síðar, Eið Smára Guðjohnsen.
Það er þvi engum vafa undirorpið að Kínverjarnir eru ekki lengur að koma til Íslands. Þeir eru komnir.
Samt hefur verið merkilega lítil pólitísk umræða um þá staðreynd. Mestu lætin, og nánast þau einu, urðu þegar ljóðskáldið og milljarðamæringurinn Huang Nubo ætlaði sér að byggja golfvöll og ferðaþjónustu í veðravíti fyrir norðan.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.