Einn góðan veðurdag í lok febrúar finn ég það greinilega: Taum af vorlofti sem strýkst notarlega við andlitið. Svo snýr hann sér á ný í þráláta Síberíuátt og mannlífið í Peking hopar örlítið aftur inn í veturinn.
Á þessum árstíma er þjóðráð að blanda þurrkuðum jurtum sem ég kann ekki nöfn á í morgunvellinginn sem ég hef lært að heitir „zhou“ og er eins og hrísgrjónagrautur sem er soðinn í miklu vatni í staðinn fyrir mjólk. Plönturnar eru sagðar veita viðnám gegn vorhreti og hráslaga, tempra hita, mýkja hægðir og slá á gigt. Svo byrjar að snjóa. Þegar morgunhanarnir fara á stjá sjá þeir að blautur snjór hefur sest þungur og tignarlega á dúandi trjágeinar og sveigt þakskegg Hofs hininsins. Felmtri slegnir hlaupa þeir aftur inn með tíðindin en þegar almenningur æðir út til að sjá VETURINN er hann horfinn, bráðnaður og uppgufaður. Oft ríkir sérstök kyrrð í höfuðborginni á tímabili regnvatnsins. Götur og torg eru mannlaus að kalla. Engin morgunleikfimi í garðinum. Allir farnir eitthvað eða komnir eitthvað. Heim til sín. Inn í sig. Lagstir í híði. Vorhátíðin sem staðið hefur yfir í 1-2 vikur er á enda. Framundan er að kveðja ættingja og vini. Heilsa nýjum átökum við raunveruleikann.
Í aðdraganda leiktíðarinnar í kínverska boltanum að þessu sinni hafa birst óvenju margar gleðifréttir sem fá mann til að vera bjartsýnan og trúa því að dýpkun umbóta í boltanum sem forseti landsins Xi Jinping hefur boðað skili árangri. Fjallaði ein fréttin í málgagni Flokksins t.d. um fyrrverandi varaformann kínverska knattspyrnusambandsins, Nan Yong, og þann árangur sem hann hefur nýlega náð í fangelsi. Það er ekki víst að allir viti það en árið 2012 var hann ásamt fjölda kínverskra embættismanna, dómara og knattspyrnumanna fundinn sekur um mikið svindl og svínarí. Tóku þeir við mútufé, þáðu þeir stórgjafir, létu þeir bjóða sér í átveislur o.s.frv. fyrir að sveigja og beygja úrslit leikja eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Það mun síðan hafa verið þegar einn þjálfari sást greinilega í beinni útsendingu hvetja sína menn til að skora sjálfsmark að yfirvöldin gátu ekki annað en skorist í leikinn. Nan var dæmdur í 10 ½ árs fangelsi en - samkvæmt nýjust fréttum - er nú búið að milda refsinguna um eitt ár vegna mikilvægs framlags hans til vísindanna.
Mun hann hafa tekið að iðka fræðistörf í fangelsinu og ku þegar búinn að fá einkaleyfi fyrir fjórum knattspyrnutengdum uppfinningum og skrifa eina vísindaskáldsögu. Vegna þessarar fréttar varð nokkur umræða í fjölmiðlum um refsilöggjöfina í landinu og upplýsti Dagblað Pekíngæskunnar að almennt væri ekkert því til fyrirstöðu að vel stæðir fangar keyptu uppfinningar á netinu sem þeir síðan framseldu til fangelsisyfirvalda gegn mildingu refsingar. Væri þetta fyrirkomulag alþekkt en að sögn blaðsins „enn á gráu svæði“. Fleiri gleðilegar fréttir hafa spurðust út í aðdraganda sparkvertíðarinnar.
Jack Ma, kenndur við netrisann Alibaba, er mættur í kínverska boltann með auð sinn.
Einna mestum tíðindum sætir gríðarlega sterk innkoma tveggja ríkustu manna Kína (og heims) í boltann. Wang Jianlin, formaður Dalian Wanda Group, stærsta kvikmyndahúsarekanda heims, keypti t.d. 20 prósent hlut í Spánarmeisturum Atlético de Madrid og hyggst nota klúbbinn sem æfingamiðstöð fyrir efnilega kínverska spilara (leikmenn væntanlegs heimsmeistaraliðs Kína segja gárungarnir). Og Jack Ma, stofnandi og aðaleigandi Alibaba netverslunarrisans, dældi stjarnfræðilegum upphæðum í kaup á brasilíska landsliðsmanninum Ricardo Goulart fyrir Kínameistara síðasta árs, Guangzhou Evergrande, sem hann er líka nýbúinn að kaupa. Þess má geta að aðeins í ensku knattspyrnunni eru nú settir meiri peningar í leikmannakaup en í þeirri kínversku.
Brasilíumaðurinn Richardo Goulart kom til Kínameistara Guangzhou Evergrande fyrir stjarnfræðilega fjárhæð.
Mínir menn Peking-varðliðarnir hafa ekki verið eins stórtækir á leikmannamarkaðnum og hin liðin í deildinni. Það var samt ánægjulegt að þeir skyldu ná varanlegum samningi um kaup á Svíanum knáa Erton Fejzullahu frá Djurgarden en hann kom sem lánsmaður á síðustu leiktíð. Það var hins vegar blóðtaka að missa einn efnilegasta leikmann Kína Zhang Xide til Wolfsburg í desember sl. Er hann fyrsti Kínverjinn til að spreyta sig meðal þeirra bestu síðan Hao Junmin fór frá Schalke 04 fyrir um fjórum árum.