Þrumur druna í háloftunum. Hin keisaralega vekjaraklukka náttúrunnar. Brátt skríður herskari grænna lirfa upp úr moldinni. Þær ætla að hakka í sig nýsprottin laufblöðin og umbreytast svo í fiðrildi (eða pöddur).
Bændur vita að nú er að duga eða drepast. Þeir eiga leik í hinu eilífa spili manns og náttúru. Ef eitthvað klikkar við sáninguna verður uppskeran rýr. Peningarnir undir koddanum munu ekki vaxa. En tifið í skordýrunum hefur ekki bara áhrif úti á landsbyggðinni. Fulltrúar bænda, verkamanna, hermanna og -- nú í seinni tíð -- kapítalista taka að streyma þúsundum saman til höfuðborgarinnar að taka sæti sitt í rauðbólstruðu sæti er Flokkurinn hefur úthlutað þeim í Höll alþýðunnar við Torg hins himneska friðar sem er heimspekileg miðja Miðríkisins (á kínversku heitir Kína Zhongguo sem þýðir Miðríkið). Þetta er hið svokallaða „sósíalíska lýðræði með sér-kínverskum einkennum“ í framkvæmd. Fulltrúarinir hlusta á seríur af þriggja klukkustunda löngum ræðum leiðtoga landsins og rétta upp hönd þegar við á. Allt er alveg að verða nýtt og betra. Hveitið, kornið, hrísgrjónin, lögin, reglurnar um áveitukerfin og lágmarkslaunin og margt margt fleira.
Lokakeppni í forrétt
Meðan beðið er eftir að leiktíðin hefjist í kínverska boltanum er alla jafna boðið upp á nokkra „forrétti“. Í janúar fór t.d. fram lokakeppni Asíu-móts landsliða. Í Kína voru menn á einu máli um að „strákarnir okkar“ hefðu staðið sig ágætlega jafnvel þó þeir hefðu ekki komist mjög langt. Þjóðin var fyrst og fremst glöð yfir því að fnykur spillingar, mútumála og hvers lags hneykslismála sem plagað hefur boltann svo lengi sem elstu menn muna virtist hafa verið skúbbaður af fyrir þetta mót.
Einlægur baráttuandi var sýnilegur í naumum sigrum á Sádum, Úsbekistum og N-Kóreumönnum. Það þótti því hreinlega ekki við hæfi að vera með leiðindi í fjölmiðlum þrátt fyrir 2-0 tap gegn heimamönnum Áströlum í átta liða úrslitunum í Brisbane -- nota bene, á velli sem var eitt moldarflag eftir hin ruddalegu rugby-einvígi sem þar fara að staðaldri fram. Þess má geta að Ástralir héldu áfram á sigurbraut og hömpuðu að lokum Asíu-bikarnum með því að leggja S-Kóreumenn 2-1 í úrslitaleiknum. Í febrúar fóru síðan fram fyrstu leikirnir í Asíu-keppni félagsliða, en fjögur kínversk lið taka þátt að þessu sinni. Gerðu þau sér öll lítið fyrir og sigriðu í fyrstu umferð riðlakeppninnar.
Í janúar fór fram lokakeppni Asíu-móts landsliða. Í Kína voru menn á einu máli um að lið landsins hefði staðið sig ágætlega jafnvel þó þeir hefðu ekki komist mjög langt.
Stóru liðin og erkifjendur síðustu ára Peking-varðliðarnir og Guangzhou Evergrande unnu einnig í annari umferð og þykja líkleg til að komast upp úr sínum riðlum. Annars er Asíu-keppnin ekki hvað síst áhugaverð fyrir þær sakir að veita innsýn í lönd er annars eru að mest lokuð. Verða heimaleikir írösku liðanna í Basra eða Aleppo? Verða þau yfirleitt með í ár? Hvað með Sýrland, Líbanon og N-Kóreu? Eru Uzbekistar betri eða verri undir einræði Karimovs? Hefur boltinn í Búrma komið til eftir að Aung San Suu Kyi var leyst úr stofufangelsi? Ég hvet áhugamenn um stjórnmál Miðausturlanda, Mið-Asíu og Austurlanda fjær að fylgjast með Asíu-keppninni hér.
Árátta að hlaða upp varnarmúrum
Sjálfur er ég mikill aðdáandi Peking-varðliðanna. Það hófst með því að ég flutti til Peking fyrir nokkrum árum og fór að fylgjast með sparki heimamanna í sjónvarpinu á laugardagskvöldum meðan ég var að bíða eftir beinni útsendingu frá enska boltanum (sem vegna tímamismunar hefst hér ekki fyrr en um miðnætti).
Peking-varðliðarnir er dæmigert Norður-Kína lið. Byggir á áráttu norðanmanna að hlaða upp varnarmúrum /Kínamúrum í bland við leiftrandi skyndisóknir í kung-fu stíl. Guangzhou Evergrande treystir hins vegar á auðmagn eigenda síns Jack Ma til að krækja í upprennandi stjörnur frá Brasilíu og gamlar kempur frá Evrópu. Keppni þessara tveggja liða endurspeglar þannig að nokkru leyti togstreituna er ríkir hér eystra milli fornra kínverskra dyggða annars vegar og nútímans hins vegar með alla sína peninga, tækni og alþjóðlegu viðskipti. Það segir sína sögu um hve hörð þessi barátta er að í síðustu átta viðureignum liðanna hafa bæði lið unnið tvisvar en fjórum sinnum hafa þau skilið jöfn.