Vorboðarnir í Peking eru margir, en sá sem ég er hvað spenntastur fyrir er upphaf knattspyrnuleiktíðarinnar. Í febrúar /mars er enn að vísu of kalt til að hægt sé að hefja spark af fullum krafti. Þar að auki eru flestir uppteknir á þessum tíma af því að fagna nýju kínversku ári. Millistéttinn flýgur á Boeging-þotum út úr landinu, í verslunarferð til Hong Kong í sólina á Phuket-eyju eða í hámenninguna í Mið-Evrópu.
Verkafólkið streymir hins vegar eftir æðakerfum járnbrautalestanna inn í landið, á vit fjölskyldna sinna sem enn eru bundnar þorpunum og smábæjunum órjúfanlegum böndum. Á yfirborðinu er galsi í mannskapnum en undir niðri krauma sterkar tilfinningar. Hvernig sýni ég væntumþykju? Hvað á ég að segja? Hvað á ég að gefa? Og hvar er réttlætið?
Stétt þrjú hundruð milljóna farandverkamanna, sem borið hefur uppi hagvöxt í Kína og í öllum heiminum í meira en 30 ár, hefur ekki enn fengið inngöngu í nútímann. Hún getur ekki framfleytt sér í sveitinni. Hún er kúguð af vinnuveitendum sínum í borginni. Hún hefur ekki aðgang að grundvallarþjónustu á borð við menntun og heilbrigðisþjónustu. Og hún fær ekki að berjast fyrir bættum kjörum. Hún verður að trúa á Kommúnistaflokkinn. Treysta því að „draumurinn“ sem forseti landsins Xi Jinping boðar verði einn daginn að veruleika (opinber kynning á draumnum hér) .
Shanghai Greenland Shenhua Football Club er stærsta knattspyrnulið Kína. Stórstjörnur á borð Við Nicolas Anelka og Didier Drogba hafa til að mynda leikið með liðinu.
Forsetinn boðar umbætur í kínversku knattspyrnunni
Vel á minnst, á dögunum hélt forsetinn fund í efnahags- og umbótaráði Flokksins þar sem hann boðaði nýja áætlun fyrir framþróun kínversku knattspyrnunnar. En eins og kunnugt er situr Kínverska karlalandsliðið yfirleitt í kring um hundraðasta sætið á lista FIFA yfir bestu /verstu fótboltaþjóðir heims og teljast því verri en við Íslendingar (þrátt fyrir að vera 4 þúsundum sinnum fleiri).
Fjölmennasta ríki heims er sem sagt örríki á eina mælikvarðann sem í raun skiptir máli þegar kemur að því að raða þjóðum á styrkleikalista. Telja sumir að viss miður æskileg einkenni í fari kínverskra karlmanna (svo sem eins og kaldhæðni, óregluleg kvíðaköst og svefnleysi) megi rekja til þess að hagvöxturinn í landinu hefur ekki enn leitt til framfara í knattspyrnu.
Áður en lengra er haldið ber þess að geta að kínverski boltinn hefur fengið nákvæmlega sömu meðferð og landbúnaðurinn, kolanámuiðnaðurinn, heilbrigðiskerfið og svo framvegis eftir að Maó lést árið 1976. Næstum allt sem hönd á festir hefur verið bútað niður, markaðsvætt og opnað. Árið 1994 var til dæmis tekin upp atvinnumannakeppni og félgsliðum leyft að finna sér sína eigin kostunaraðila. En allt kemur fyrir ekki. Kína er enn í hundraðasta sæti og leiðtogar landsins þora ekki að sækja um HM 2626 af ótta við að landsliðið verði þjóðinni til skammar á heimavelli.
Breytingar í uppsiglingu?
Eftir að Xi Jinping komst til valda árið 2012 hafa sérfræðingar í málefnum Kína leitt að því líkum að nú kunni að verða breyting á. Segja þeir að forsetinn geri sér far um að láta mynda sig á knattspyrnuvöllum í opinberum heimsóknum. Með því gefi hann til kynna að það sé í anda „sósíalísks lýðræðis með sér-kínverkum einkennum“ að spila fótbolta. Markmið hans sé eftirfarandi: 1) Kína komist í undankeppni HM; 2) Kína haldi HM; 3) Kína vinni HM. Eftir fundinn í efnahags- og umbótaráðinu um daginn hafa þessar vangaveltur fengið byr undi báða vængi. Mun hafa verið samþykkt af ráðsmönnum að dýpka umbætur í boltanum og er talið að það komi fljótlega í ljós til hvaða aðgerða verði gripið í því skyni.
Mitt lið Beijing Guoan eða Peking-varðliðarnir eru enn í þjóðareign. Það er ríkisfyrirtækið CITIC Group (áður China International Trust and Investment Corporation) sem fer með stærsta hlutinn í félaginu. En nú er spurning hvað gerist í kjölfar dýpkunar umbóta í boltanum. Verður liðið loksins einkavætt? Flytur það frá þjóðarleikvanginum, „Leikvangi verkamannsins“? Er það nóg til að kínverska knattspyrnan skáni? Þetta verður skemmtilegt tímabil. Seinna köllum við það kannski Vorið í kínverska boltanum?