Kínverskir hakkarar komust yfir viðkvæm gögn úr bandaríska kerfinu, einkum persónulegar upplýsingar og leynilegar skýrslur um hin ýmsu mál. Þetta kemur fram í New York Times í dag, en málið má rekja um fimm ár aftur í tímann þegar yfirvöld í Bandaríkjunum höfðu nokkra hakkarahópa frá Kína undir eftirliti eftir að þeir voru staðnir að því að ná í upplýsingar frá orkufyrirtækjum og stofnunum í Bandaríkjunum.
Eftir því sem tíminn leið misstu yfirvöld af hluta þessara hópa, sem tókst að komast inn í viðkvæmar gagnageymslur hins opinbera í Bandaríkjunum.
Að því er fram kemur í umfjölluninni þá er ein ástæðan fyrir því að hökkurunum tókst að komast yfir gögnin sú, að öryggi aðgangsorða starfsmanna var ófullnægjandi. Þannig fengu starfsmenn að nota aðgangsorðið „password“ og einnig upphafsstafi í nöfnum sínum.
Þetta gerði hökkurunum auðvelt fyrir við að brjótast inn í kerfin, en innbrotin eru nú til rannsóknar hjá Alríkislögreglunni FBI.