Íslandsbanki og Landsbankinn hafa hækkað vexti á föstum óverðtryggðum íbúðalánum til þriggja og fimm ára. Vaxtatafla Íslandsbanka breyttist í dag og er ástæðan hækkun ávöxtunarkröfu á markaði og hækkandi fjármagnskostnaður bankans vegna þessa, samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka. Hækkunin nemur 0,3 prósentustigum á óverðtryggðum lánum til þriggja ára og 0,4 prósentustigum á lánum til fimm ára.
Hjá Landsbankanum hækkuðu vextir á sambærilegum lánum þann 21. maí síðastliðinn. Hækkunin er 0,3 prósentur. Spurður um ástæður hækkana bendir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi bankans, á að vextir hafi hækkað á skuldabréfamarkaði og fjármögnun því orðin dýrari fyrir bankann. Þá sé óvissa um áhrif kjarasamninga og ríflegra launakrafna auk þess sem óvissa ríki vegna afnáms gjaldeyrishafta. Á fjármálamörkuðum séu undirliggjandi væntingar um aukna verðbólgu.
Arion banki hefur ekki tekið ákvörðun um hækkun á útlánsvöxtum en bankinn fylgist með þróuninni, að sögn Haralds Guðna Eiðssonar, upplýsingafulltrúa bankans.
Kjarasamningar undirritaðir
Síðasta föstudag var skrifað undir kjarasamninga sem ná til alls um 65 til 70 þúsund launþega. Samtök atvinnulífsins hafa undanfarnar vikur og mánuði varað við áhrifum launahækkana og verðbólgu sem þeim fylgir. Seðlabankinn hefur talað á svipuðum nótum. Í kjölfar undirritunar kjarasamninga á föstudag var haft eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að líkur á vaxandi verðbólgu séu verulegar og hækkandi álag á ríkisskuldabréfamarkaði sýni það.
Versnandi kjör á íbúðalánum eru ein birtingarmynd vaxandi verðbólgu. Hún mældist 1,6 prósent í maí og var undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans, 16. mánuðinn í röð. Greiningardeildir bankanna spá allar aukinni verðbólgu á komandi mánuðum. Þannig spáir greiningardeild Landsbankans því að verðbólga geti orðið allt að 4,5 prósent að meðaltali á næstu þremur árum.