Félagsmenn í VR samþykktu nýgerða kjarasamninga félagsins og atvinnurekenda með miklum meirihluta atkvæða, en kosningu lauk á hádegi í dag. Þátttaka í atkvæðagreiðslunum tveimur var meiri en verið hefur undanfarinn áratug.
Samningur VR við Samtök atvinnulífsins var samþykktur með 73,9 prósentum atkvæða en 23,8 prósent sögðu nei og 2,3 prósent skiluðu auðu. Kosningaþátttakan var 18,7 prósent, en rúmlega 27 þúsund manns voru á kjörskránni.
Samningur félagsins við Félag atvinnurekenda var samþykktur með 72,4 prósentum atkvæða en 26,6 prósent voru á móti og 0,9 prósent tóku ekki afstöðu. 26,16 prósent þeirra 818 sem voru á kjörskrá tóku þátt í kosningunni. Undanfarinn áratug hefur þátttaka í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga VR verið mest 15,5 prósent.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir í tilkynningu að það sé ánægjulegt að samningarnir hafi verið samþykktir með afgerandi meirihluta og félagsmenn hafi samþykkt áherslur VR í samningaviðræðunum.
Lágmarkslaunataxtar hækka um 25 þúsund krónur frá og með 1. maí síðastliðnum og byrjunarlaun hækka að auki um 3.400 krónur. Þá hefur tekið gildi launaþróunartrygging samkvæmt samningunum sem nú hafa verið samþykktir. Skoða má samningana tvo hér og hér.