Við lifum sögulega tíma, ekki aðeins hér á landi, heldur ekki síðar erlendis. Ritstjórn Kjarnans fylgist vel með gangi mála, og má hér að neðan finna umfjallanir sem að mati ritstjórnar eru vandaðar, áhugaverðar og skemmtilegar, hver með sínum ólíka hætti.
Skelfingin í Naíróbí – The New York Times
Hryðjuverkasamtökin Al Shabab, sem eiga rætur í Sómalíu og hafa tengsl við hin alræmdu Al-Kaída, réðust á Garissa University College háskólann í Naíróbí í Kenýa, og drápu að minnsta kosti 143 nemendur við skólann. Umfjöllun New York Times gefur góða mynd af þessum skelfilega atburði, en svo virðist sem vígamennirnir hafi handvalið nemendur úr hópnum sem voru múslimar og leyft þeim að komast undan.
Hér má síðan sjá umfjöllun Quartz þar sem því er velt upp, að stjórnvöld í Kenýa hafi hugsanlega sofið á verðinum og gert lítið úr hættunni sem stafaði af Al Shabab til þess að vernda ferðaþjónustuna í landinu.
https://www.youtube.com/watch?v=-zsn2w-Cfd4
Áhugaverðar umfjallanir um skelfilegan atburð.
Ótrúlegar myndir – Chongqing Express
Ljósmyndarinn Tim Franco, sem fæddur er í París en hefur sinnt alþjóðlegum ljósmyndaverkefnum á sínum starfsferli, dvaldi í borginni Chongqing í Kína og myndaði þar byggingar, mannlíf og skipulag fyrir Chongqing Express, fjölmiðil í borginni. Vefmiðillinn frábæri Quartz tók myndirnar síðan upp á sína arma, og gerði umfjöllun um þær. Myndirnar eru sláandi og glæsilegar í senn. Myndirnar sýna dökkar hliðar þeirrar ógnarhröðu uppbyggingar sem átt hefur sér stað í borginni.
Þetta er gott dæmi um hversu stórkostlegt ljósmyndaformið getur verið. Ekkert kemur í staðinn fyrir góðar myndir.
Skál! – Quartz.
Eitt af því sem hefur blómstrað eftir hrunið á fjármálamörkuðum, er útflutningur á skosku vískíi til Bandaríkjanna. Árið 2008 voru 280 milljónir lítra af vískí fluttir frá Skotlandi til Bandaríkjanna, en árið 2011 var talan komin upp í 360 milljónir lítra. Nú er aftur aðeins farið að halla undan fæti hjá Skotunum, en ástæðan er fyrst og síðast harðnandi samkeppni. Bandarískt vískí, eins og Jack Daniels, nýtur vaxandi vinsælda. Bandaríkin er næst mikilvægasti markaðurinn í heiminum fyrir skoskt vískí, á eftir Frakklandi.
Ekki kannski hefðbundnasta útflutningsvaran til þess að fjalla um, en hún skiptir miklu máli fyrir efnahagslífið í Skotlandi.
Frakkar gegn útlitsdýrkuninni – The Verge.
Frakkland hefur alltaf verið vettvangur hátískunnar, þar sem straumarnir mótast í þeim risavaxna bransa. Eitt af því sem fylgt hefur hátískunni er mikil umræða um útlitsdýrkunina, og hvernig hún birtist í hönnun og ekki síður auglýsingum. Nú hefur þingið í Frakklandi samþykkt lög sem miða að því að vinna gegn útlitsdýrkun og anórexíu, en samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Frakklandi eru um 30 til 40 þúsund konur í landinu, sem þjást af anórexíu. Í lögunum er meðal annars heimild til þess að refsa þeim sem ráða konur til módelstarfa, þar sem óeðlilegar útlitskröfur eru gerðar til kvenna.
Áhugaverð umfjöllun, sem sýnir að það er ýmislegt hægt að gera til að sporna gegn útlitsdýrkuninni sem birtist ekki síst í auglýsingum fataframleiðenda.