Búið er að ná samkomulagi við Íran um kjarnorku, sem á að koma í veg fyrir að Íranir geti þróað kjarnorkuvopn. Í skiptum fyrir það verður efnahagsþvingunum gegn Íran létt á næstu árum. Áætlað er að ganga frá endanlegu samkomulagi í júní.
Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnar samkomulaginu, sem hann segir vera sögulegt. Ef takist að ganga endanlega frá því verði búið að leysa úr einni helstu öryggisógn heimsins, og það friðsamlega.
Í Íran var samningnum fagnað á götum úti í nótt og utanríkisráðherrann Javad Zarif hylltur sem hetja. Hann segir samkomulagið vera sigur fyrir alla málsaðila.
Ekki eru allir sáttir. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, segir að samkomulagi ógni tilveru Ísraels. Það auki líkurnar á því að Íranir geri þróað kjarnorkuvopn og það sé því mikil hætta á hræðilegu stríði. Í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samkomulagið einnig verið gagnrýnt.