Engin teikn eru á lofti um að verkfalli Starfsgreinasambandsins í næstu viku verði afstýrt. Tíu þúsund manns munu leggja niður störf á miðvikudag og fimmtudag ef ekki verður samið fyrir þann tíma.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir í samtali við RÚV að ekki sé boðaður samningafundur í deilunni fyrr en á þriðjudag svo að reiknað sé með að verkfallið standi. „Það kemur ekkert frá atvinnurekendum þannig að málið er í rosalegum hnút og sáttasemjari sjálfsagt telur ekki ástæðu til að boða til fundar þegar mikið ber í milli eins og í okkar deilu.“
Björn gagnrýnir líka ummæli Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem sagði í gær á RÚV að engin skynsemi væri á bak við kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Þorsteinn talaði á sömu nótum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. „Við vitum á endanum að verkalýðshreyfingin getur knúið hvaða vitleysu í gegn í krafti verkfalla sem hún kýs að gera. Vegna þess að á endanum stendur fyrirtækið frammi fyrir valkostunum að ganga að þessum kröfum eða að fara einfaldlega á hausinn.“
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, var í þættinum líka og mótmælti þessum orðum Þorsteins. „Við vildum ekki vera í þessari stöðu sem við erum í í dag.“ Þá sagðist hún óttast það að lögbann verði sett á verkföll. Þorsteinn hefur þó sagt að atvinnurekendur muni ekki fara fram á lögbann.
Þá greinir RÚV frá því að í Bónus sé ferskur kjúklingur uppurinn og ferskt grísakjöt af nýslátruðu sömuleiðis vegna verkfalls. Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri segir að enn sé til nóg af lambakjöti og fiski, og eitthvað af nautakjöti, en hratt gangi á birgðir af frosnum kjúklingi.
Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru meðal þeirra stétta sem nú greiða atkvæði um verkfallsboðun. Ef ekki semst á næstunni er útlit fyrir að um 100 þúsund manns verði í verkfalli í lok mánaðar.