Kókaínframleiðsla fer nú fram á minna landsvæði en áður, ekki síst vegna kerfisbundinna aðgerða stjórnvalda í Kólumbíu þar sem markmiðið er að þrengja að kókaínframleiðslu og ná betri stjórn á þeim svæðum þar sem framleiðslan fer fram. Í skýrslu UNODOC, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn notkun fíkniefna og skipulagðri glæpastarfsemi, kemur fram að í lok árs 2012 hafi ræktun kókalaufa úr kókajurtinni farið fram á 133.700 hektara landi, sem er það minnsta síðan árið 1990. Í Kólumbíu nam minnkunin 25 prósentum, landsvæði undir kókalaufaræktun fór úr 64 þúsund hekturum árið 2011 í 48 þúsund árið 2012. Það ár voru framleidd 309 tonn af hreinu kókaíndufti samkvæmt skýrslu UNODOC, en það er minnsta magn frá 1996 samkvæmt opinberum tölum.
Kókaínlöndin þrjú
Afgangur landsvæðisins sem fer undir kókaínframleiðslu er í Perú og Bólivíu, og á nokkrum öðrum stöðum á hásléttum Andesfjalla í Suður-Ameríku sem tilheyra öðrum ríkjum. Ræktun kókajurtarinnar hefur verið reynd víða um heim en hún hefur ekki breiðst mikið út. Þó eru skilyrði til uppræktunar í Suðaustur-Afríku og í Asíu, einkum Taílandi, Kambódíu og Víetnam. En eins og fyrr segir er hjarta kókaínhagkerfisins, hvað framleiðslu varðar, fyrst og fremst í Kólumbíu, Perú og Bólivíu.
Hinn harði heimur tekur við
Í Suður-Ameríku er vinnsla úr kókajurtinni viðurkenndur landbúnaður á fyrstu stigum, það er frumvinnsla á laufunum sjálfum. Sú vinna nýtur virðingar og fær að viðgangast svo til óáreitt. Aðgerðir til þess að draga úr landflæmi sem fer undir kókajurtaræktun hafa þó áhrif á umfang þessarar vinnu, en bændurnir byggja vinnu sína á langri hefð. Hinn harði heimur kókaíniðnaðarins má segja að taki við þegar úrvinnsla úr kókalaufunum hefst og ólögleg sala á kókaíni, duftinu sem unnið er úr jurtinni, fer fram. Þá breytist kókajurtaiðnaðurinn úr viðurkenndum landbúnaði í glæpsamlega iðju í Suður-Ameríku. Mörgum kann að virðast þetta undarlegt, það er að framleiðslan sjálf njóti verndar og fái þannig óáreitt að viðgangast og verða óhjákvæmilega undirrót kókaínhagkerfisins. En þetta er flóknara en svo, eins og skýrsla UNODOC sýnir glögglega.
Mikil eftirspurn hjá vel stæðu fólki
Skipulögð glæpastarfsemi, sem veltir milljörðum dala á ári, fer að mestu með sölu á kókaíndufti til helstu markaðssvæða. Stærsti einstaki markaðurinn fyrir kókaín er í Bandaríkjunum en áætlað er að á bilinu 14 til 20 milljónir manna um allan heim neyti kókaíns í mismiklum mæli. Þar af er stór hluti í Bandaríkjunum eða um þrjár milljónir manna. Önnur helstu markaðssvæði kókaíns eru Mið-Evrópa, einkum vel stætt fólk. Neysla er einnig nokkuð mikil í strandríkjum við Miðjarðarhafið, ekki fjarri stórum höfnum þar sem skip frá Suður-Ameríku koma til hafnar. Mesta hlutfallslega neyslan á kókaíni er hins vegar mest í nágrenni við ræktunarstaðina í Suður-Ameríku og einnig í Mið-Ameríku, Mexíkó og nágrenni. Kókaín hefur lengi verið markaðssett fyrir vel stætt fólk og er oft nefnt fíkniefni ríka fólksins. Ástæðan er sú að efnið er dýrt á smásölumarkaði og hefur það orðspor víða að vera ekki „of skaðlegt“ þrátt fyrir að rannsóknir hafi margstaðfest hið gagnstæða.
Brasilía nýja kókaínlandið
Neysla á kókaíni hefur vaxið mikið í Brasilíu samhliða uppgangi í efnahagslífi undanfarinn áratug. Brasilía þekur um helming alls landflæmis Suður-Ameríku og er langfjölmennasta ríki álfunnar með ríflega 200 milljónir íbúa. Landið á landamæri að höfuðríkjum kókaínframleiðslunnar, Kólumbíu, Perú og Bólivíu, og í gegnum Brasilíu streymir mikið magn efna. Í skýrslu UNODOC segir að landið geti lítið gert til þess að stemma stigu við smygli á efnum til landsins umfram hefðbundið landamæraeftirlit. Í ljósi mikillar og vaxandi eftirspurnar í landinu eftir kókaíni megi búast við enn umfangsmeiri skipulagðri glæpastarfsemi í landinu á næstu árum. Neysla hefur sérstaklega aukist mikið meðal nemenda í menntaskólum og er sérstaklega vikið að þessu í skýrslu UNODOC. „Í nýlegri könnun á meðal menntaskólanema í höfuðstöðum ríkja Brasilíu kemur fram að um þrjú prósent nemenda hafi neytt kókaíns,“ segir í skýrslunni. Þrjú prósent telst mjög hátt í alþjóðlegum samanburði, en algeng viðmiðun er á bilinu 0,4 til 1 prósent. Allt yfir einu prósenti af heildarúrtaki telst mikið enda telst kókaín til harðra fíkniefna þrátt fyrir að útbreiðsla þess sé mikil á meðal neytenda sem ekki teljast vera dæmigerðir fíkniefnaneytendur.
Hafnirnar skipta sköpum
Samhliða hinum mikla vexti efnahagslífs Brasilíu hefur uppbygging á hafnarmannvirkjum verið gríðarlega mikil, ekki síst við Ríó. Þaðan fara stærstu flutningaskipin til Evrópu, Asíu og Afríku. Í gegnum þessar flutningaleiðir fer kókaínduft til þessara svæða, þar sem glæpagengi taka við þeim og selja í smásölu, oftar en ekki eftir mikla útþynningu. Í skýrslu UNODOC segir að kókaín sem selt er í smásölu sé í vaxandi mæli mikið útþynnt, enda hefur verið þrengt að frumframleiðslunni á meðan neysla hefur staðið í stað eða aukist lítið eitt. Lögregluaðgerðir víða um heim hafa auk þess sífellt orðið markvissari og hefur samvinna þvert á landamæri leitt til þess að hreint kókaín hefur verið haldlagt mun víðar og oftar en reyndin var fyrir fáeinum árum.
Grimmdin oft nánast ólýsanleg
Þó að harðvítug glæpagengi og fíkniefnasmygl sé áberandi í Mexíkó og í ríkjum Suður-Ameríku, ekki síst í tengslum við baráttu um smyglleiðirnar inn í Bandaríkin, er harkan mikil víða annars staðar. Það versta er að lögregluyfirvöld hafa litlum árangri náð í þessari baráttu þrátt fyrir að almenn vitneskja um fíkniefnaiðnaðinn aukist ár frá ári. Með öðrum orðum er yfirsýnin sífellt að verða betri og meiri um öll stig kókaíniðnaðarins en neyslan minnkar ekkert, nema á stöku svæðum, og glæpirnir fylgja hvar sem stigið er niður. Harkan í átökunum hefur farið vaxandi, einkum vegna þess að skipulögð glæpasamtök nýta hræðslu og ógnanir til þess að halda völdum í þessum heimi án laga og reglna. Afhöfðanir, limlestingar, mannrán og líkamsárásir eru daglegt brauð í þessum heimi og því miður eru aðrir hörmulegir skipulagðir glæpir, eins og mansal, samofnir þessum heimi. Starfshópur undir stjórn framkvæmdastjóra UNODOC, Júrí Fedotov, skilaði af sér skýrslu í tengslum við lokaskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2014. Í henni kemur fram að „boð og bönn“ virki ekki sem skyldi og að stríð gegn fíkniefnagengjum skili litlum sem engum árangri. Þá takist ekki að uppræta landlæga spillingu nálægt helstu framleiðslusvæðum kókaíns í Suður-Ameríku og meðan svo sé verði erfitt að ná tökum á helstu svæðum þar sem gengin starfi og skipuleggi starfsemi sína. Breyta þurfi um aðferðafræði og einblína á forvarnir og upplýsingu. Margsannað sé að fíkniefni eins og kókaín séu heilsuspillandi og stórhættuleg. Hamra þurfi á þessum skilaboðum í gegnum skipulagt starf og reyna þannig með langtímamarkmið að leiðarljósi að draga úr eftirspurn eftir þessum vágesti í samfélagi manna sem kókaínið er.
Þetta er styttri útgáfa af umfjölluninni. Hana má finna í fullri lengd í Kjarnanum.