Á kröfuhafafundi Kaupþings á morgun, miðvikudag, munu kröfuhafar greiða atkvæði um að veita Seðlabankanum og íslenska ríkinu ábyrgðarleysi sem nær til allra ákvarðana, athafna eða athafnaleysis stjórnvalda við framkvæmd fjármagnshafta, fyrirhugaðan nauðasamning slitabúsins, veitingar undanþágu frá höftum og stöðugleikaframlag kröfuhafa. Samkvæmt heimildum DV, sem greinir frá málinu í dag, er að finna sambærilegt ákvæði um ábyrgðarleysi til handa íslenskum stjórnvöldum í nauðasamningum Glitnis og gamla Landsbankans (LBI). Í umfjöllun blaðsins segir að skaðleysið sé að frumkvæði helstu ráðgjafa stjórnvalda, sem skipuðu framkvæmdahóp um losun fjármagnshafta.
Samþykki kröfuhafa þýðir að hvorki þeir né slitabúin geta höfðað mál á hendur íslenska ríkinu eða Seðlabankanum vegna hugsanlegra skaðabóta sem þeir kunna að eiga rétt á í tengslum við framkvæmd fjármagnshafta og uppgjör búanna.
Tíu milljarða skaðleysissjóður
Þá fer slitastjórn Kaupþings fram á það að kröfuhafar búsins samþykki ályktun um að settur verði á fót sérstakur sjóðum, að jafnvirði tíu milljarða króna, til að tryggja slitastjórnarmeðlimum skaðleysi vegna mögulegra málsókna gegn þeim er tengjast uppgjöri búanna. Samkvæmt frétt DV, sem hefur bréf til kröfuhafa undir höndum, verður kosið um stofnun sjóðsins á komandi kröfuhafafundi. Sjóðurinn er sambærilegur þeim sem kröfuhafar Glitnis hafa þegar samþykkt.