Um 57 prósent svarenda í nýrri könnun um viðhorf til móttöku flóttafólks eru hlynntir því að Ísland taki við flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu mánuðum. Um 22 prósent eru andvíg því. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu þá eru konur mun hlynntari því en karlar að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi, yngri svarendur eru mun hlynntari því en þeir sem eldri eru, Reykvíkingar eru mun hlynntari því en aðrir, þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru hlynntari því en þeir sem hafa styttri skólagöngu að baki og þeir sem hafa litlar eða engar áhyggjur af fjölda innflytjenda á Íslandi eru hlynntari móttöku flóttafólks en þeir sem hafa einhverjar áhyggjur.
Í skýrslu Maskínu um könnunina kemur fram að verulegur munum hafi mælst á svörum fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður. Kjósendur Vinstri grænna eru hlynntastir því að Ísland taki við flóttamönnum frá Sýrlandi. Yfir 70 prósent kjósenda flokksins segjast hlynntir því að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi. Sama hlutfall hjá kjósendum Samfylkingarinnar og Pírata er á bilinu 66 til 68 prósent. Einungis 22 prósent kjósenda Framsóknar eru hlynntir því að taka á móti sýrlenskum flóttamönnum, um 38 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og næstum þrír af hverjum fjórum kjósendum Bjartrar framtíðar. Meðaltalið er þó hæst hjá kjósendum Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar, þar sem fáir taka afstöðu gegn því að Ísland taki á móti flóttafólki frá Sýrlandi.
Þegar spurt var hversu mörgum flóttamönnum frá Sýrlandi þú telur að Ísland eigi að taka við á næstu tveimur árum sagði 26,4 prósent aðspurðra að ekki ætti að taka við neinum. Um 26,3 prósent nefndu fjölda á bilinu einn til hundrað og 22,3 prósent töldu að taka ætti á móti 101 til 500 manns. Um 9,6 prósent aðspurðra nefndu fjölda hærri en 2000 manns, en engir fyrirfram tilgreindir svarmöguleikar voru til staðar heldur slógu svarendur inn tölu.
Fólk yngra en 35 ára var líklegra en fólk eldri en 35 ára til að vilja taka á móti flóttamönnum. Á bilinu 42 til 46 prósent kjósenda stjórnarflokkanna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sögðust ekki vilja taka á móti neinum flóttamanni. Sama hlutfall hjá Samfylkingu og Vinstri grænum var innan við tíu prósent.
Könnun Maskínu fór fram dagana 4. til 15. september síðastliðinn. Hún var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er byggð á slembiúrtaki úr Þjóðskrá og nær til fólks af báðum kynjum á aldrinum 18 til 75 ára. Svarendur voru 747 og eru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við hvernig þeir þættir skiptast í þjóðskrá.