Samtök atvinnulífsins (SA) hafa ráðið Konráð S. Guðjónsson, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og núverandi aðalhagfræðing sjóðstýringarfyrirtækisins Stefnis, tímabundið í stöðu efnahagsráðgjafa í aðdraganda komandi kjarnasamningsgerðar. Hann mun jafnframt taka sæti í samninganefnd SA og hefja störf um komandi mánaðamót. Þegar hlutverki hans hjá SA er lokið mun Konráð snúa aftur til Stefnis, sem er í eigu Arion banka.
Frá þessu er greint í tilkynningu á heimasíðu SA í dag. Þar er haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóri SA, að það sé mikill styrkur að fá Konráð tímabundið til liðs við SA. „Við væntum mikils af honum og þekkjum vel til hans starfa í gegnum tíðina.“
Sumarið 2020 var Konráð ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og sinnti því starfi þar til seint á síðasta ári þegar hann réð sig til Stefnis. Hann er með meistaragráðu í hagfræði frá Warwick háskóla í Bretlandi og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.