Kópavogsbær hefur ekki lögsögu í lofthelginni yfir sveitarfélaginu, samkvæmt minnisblaði sem bæjarlögmaður Kópavogsbæjar lagði fyrir fund bæjarráðs í vikunni. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Andri Steinn Hilmarsson, hafði lagt fram fyrirspurn til bæjarlögmanns um heimildir bæjarins til þess að stýra lofthelginni yfir bænum. Þær eru ekki til staðar.
Ástæðan fyrir því að Andri Steinn lagði fram fyrirspurnina er sú að flugumferð frá Reykjavíkurflugvelli hefur valdið íbúum á Kárnesi óþægindum, ekki síst sú mikla þyrluumferð sem var með ferðamenn frá Reykjavíkurflugvelli að eldstöðvunum við Fagradalsfjall.
Andri Steinn lagði til á bæjarstjórnarfundi síðla í október að bæjaryfirvöld beittu sér fyrir því að þyrluflugi, og raunar umferð einkaþota einnig, yrði komið fyrir annars staðar en á Reykjavíkurflugvelli. Í máli Andra kom fram að Reykjavíkurflugvöllur gegndi mikilvægu hlutverki í sjúkraflugi, en að þyrluflug og flugumferð einkaþota ætti ekki heima nærri íbúabyggð.
Í minnisblaði bæjarlögmanns er vísað til þess að samkvæmt lögum um lofthelgi fari ráðherra með yfirstjórn flugmála á íslensku yfirráðasvæði, innviðaráðuneytið fari um þessar mundir með málefni samgangna í lofti og Samgöngustofu sé í lögum um loftferðir falin umsjón og eftirlit með loftförum, flugrekstraraðilum og flugvöllum, auk annars. Af þessu megi ráða að sveitarfélagið hafi ekki lögsögu yfir lofthelginni yfir sveitarfélaginu.
Of fá flug á Reykjavíkurflugvöll til að hávaðareglugerð gildi
Í svari bæjarlögmannsins er einnig vakin athygli á því að samkvæmt lögum um lofthelgi hafi ráðherra heimild til þess að kveða á um sérstakar ráðstafanir til að draga úr hávaða á flugvöllum. Reglugerð frá 2015 sem fjalli um rekstrartakmarkanir á flugvöllum vegna hávaða gildi hins vegar einungis um flugvelli þar sem flughreyfingar, eða komur og brottfarir, séu fleiri en 50 þúsund á almanaksári, að teknu tilliti til meðaltals síðustu þriggja almannaksára.
„Samkvæmt Isavia voru lendingar og brottfarir á Reykjavíkurflugvelli árið 2021, 49.012 talsins, 20% fleiri en árið áður. Í október 2022 stóð talan í 37.225. Reykjavíkurflugvöllur uppfyllir því ekki skilyrði um fjölda flughreyfinga til að ákvæði reglugerðarinnar séu virkjuð,“ segir í minnisblaði bæjarlögmanns.
Vinstri græn telja róttækar aðgerðir tímabærar
Reykjavíkurflugvöllur var kjörnum fulltrúum í fleiri sveitarfélögum ofarlega í huga í vikunni. Á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar í gær, fimmtudag, var tekin fyrir tillaga Vinstri grænna um að borgarstjóri beitti sér fyrir takmörkun umferðar einkaþotna og þyrla um Reykjavíkurflugvöll. Tillagan var felld með sex atkvæðum fulltrúa meirihlutans og Sjálfstæðisflokks, gegn einu atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokksins.
Í umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara um málið var bent á að samið var um það á milli ríkis og borgar árið 2013 að innanríkisráðuneytið, sem þá var, og Isavia, myndu hafa forgöngu um að finna kennslu- og einkaflugi annan stað í nágrenni Reykjavíkur.
„Þar sem umrædd samningsskylda sem hvílir á herðum íslenska ríkisins er enn í fullu gildi og óumdeild meðal aðila samkomulagsins, er ekki talin ástæða til að Reykjavíkurborg hlutist til um að gera annað samkomulag við íslenska ríkið um sama atriði. Allt að einu er mikilvægt að Reykjavíkurborg haldi áfram umræddri samningsskuldbindingu á lofti gagnvart íslenska ríkinu með formlegum hætti,“ sagði í umsögn sem borgarritari skrifaði undir.
Stefán Pálsson, áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í borgarráði, áréttaði í bókun mikilvægi tillögu flokksins um að „fela borgarstjóra þegar að ganga til samninga við ríkisvaldið um að losa Reykjavíkurflugvöll og þar með borgarbúa undan þeirri áþján sem hlýst af einkaþotu- og þyrluflugi á vellinum“.
„Í umsögn borgarritara um málið er vísað til níu ára gamals samkomulags ríkis og borgar um að færa einka- og kennsluflug á annan stað. Sú staðreynd ein og sér að lítið hefur gerst í málinu í tæpan áratug ætti að staðfesta mikilvægi þess að hreyfa við því að nýju með róttækum hætti. Þá hafa forsendur breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er, ekki síst varðandi stórkostlega aukna þyrluumferð sem mörg telja enn meira truflandi en umferð flugvéla. Líklegt má telja að leysa mætti þyrlumálin sérstaklega án þess að tengja það ákvörðunum um framtíðarmiðstöð innanlandsflugsins,“ sagði í bókun Stefáns Pálssonar.