Næsta stjórnarkosning í Eflingu, þar með talin kosning nýs formanns, hefur verið flýtt og mun fara fram fyrir 15. febrúar næstkomandi. Samkvæmt lögum félagsins þarf kosningin að fara fram fyrir lok mars en trúnaðarráð Eflingar ákvað í gær, í ljósi aðstæðna, að halda bæði stjórnarkosningu og aðalfund eins fljótt og auðið.
Í ályktun sem samþykkt var á fundið trúnaðarráðs í gær er, líkt og áður sagði, mælst til þess að kosning stjórnar fari fram fyrir 15. febrúar næstkomandi og að aðalfundur verði haldinn fyrir 15. mars.
Fráfarandi formanni þakkað
Á fundinum í gær var einnig samþykkt ályktun um fráfarandi formann, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem sagði af sér í síðustu viku. Í henni segir að Sólveig Anna hafi gefið „fyrirheit um breytingar í Eflingu í kosningabaráttu vorið 2018. Við þau fyrirheit hefur hún staðið. Í formannstíð Sólveigar Önnu hefur þjónusta félagsins tekið miklum framförum.
Sólveig Anna sýndi að Efling gæti ekki aðeins leitt endurnýjaða baráttu verka- og láglaunafólks heldur náð raunverulegum árangri í þeirri baráttu. Þetta er rækilega staðfest í tölum yfir launaþróun síðustu ára.“
Trúnaðarráðið þakkar Sólveigu Önnu „fyrir linnulausa baráttu hennar fyrir hagsmunum Eflingarfélaga og harmar brotthvarf hennar.“
Trúnaðarráð Eflingar fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli félagsfunda sé ekki annars getið í lögum þess. Trúnaðarráðið skipa stjórn félagsins ásamt 115 fulltrúum félagsmanna. Fullskipað trúnaðarráð er 130 manns.
Ekki búin að ákveða hvort hún bjóði sig aftur fram
Í viðtali við Kjarnann um síðustu helgi sagðist Sólveig Anna ekki vera búin að ákveða hvort hún muni bjóða sig aftur fram til formanns Eflingar.
Hún skilji þó að það séu bollaleggingar um hvort hún muni fara aftur fram í komandi formannskosningum í Eflingu, sem þurfa að fara fram fyrir lok mars á næsta ári. „Ég hef fengið gríðarlegt magn af skilaboðum frá allskonar fólki sem lýsir yfir uppnámi yfir því að þetta sé að gerast og inntakið í þessum skilaboðum frá félagsfólki Eflingar er einbeitt ósk um að þetta megi ekki vera að gerast. Það er ekki vegna þess að þeim finnst ég svo skemmtileg manneskja, heldur út af þeim árangri sem hefur náðst. Og vegna þess að það fólk sem ég hef unnið með, til dæmis í samninganefndum, veit að ég gefst ekki upp. Ég segi alltaf satt og rétt frá og leita alltaf eftir lýðræðislegu umboði fyrir því sem ég geri og hef reynt að vera alltaf til staðar fyrir félagsfólk. En ég lít svo á núna að ég geti ekki hugsað lengra fram í tímann en einn dag í einu núna. Ég er bara þar.“