Hvernig á ungt fólk að eignast fasteign í dag? Eru öll sund lokuð? Hvaða þýðingu hefur það að stunda reglulegan sparnað? Að þessu spurði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í erindi sínu á Popup ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík í tilefni af Alþjóðlegri fjármálalæsisviku sem haldin var í síðustu viku.
Bjarni tók dæmi um nýbakaða foreldra sem leggja fyrir þrjú þúsund krónur á mánuði þar til barnið verður 18 ára gamalt. Á þessum tíma, miðað við fjögurra prósenta, óverðtryggða vexti, þá hefur um ein milljón safnast þegar barnið verður 18 ára gamalt. Ef foreldrarnir leggja fimm þúsund krónur fyrir á mánuði þá nemur stærð sjóðsins um 1,5 milljónum króna við 18 ára afmælið.
„Ef sá 18 ára heldur áfram að spara þá, er upphæðin rúmlegra 1,5 milljónir við 25 ára aldur, séu þrjú þúsund krónur lagðar fyrir á mánuði, eða 2,5 milljónir ef lagðar eru 5.000 krónur á mánuði. Það er ekki slæmt að eiga að loknu námi,“ sagði Bjarni og tók fram að hér væri ekki tekið tillit til peninga sem ungmenni eignast t.d. við fermingu, afmæli eða fá frá ömmu og afa. „Margt stórt gerir eitt stórt og það borgar sig að spara. Þessar tölur geta skipt máli og haft áhrif á hvort ungt fólk hafi raunhæfan möguleika á að brúa þetta bil sem vantar þegar lán eru tekin,“ sagði Bjarni.
Að leigja eða eiga, það er spurningin
Fjármálaráðherra tók dæmi af 18,5 milljóna króna, tveggja herbergja íbúð sem var auglýst til sölu á fasteignavef, og hver munurinn gæti verið á því kaupa íbúðina og leigja hana. „Fyrsta greiðsla af óverðtryggðu láni hljóðar upp á 125 þúsund á mánuði en 100 þúsund krónur ef lánið er verðtryggt. Ætla má að leiguverð íbúðarinnar sé um 150 þúsund krónur á mánuði.
Spólum 25 ár fram í tímann. Þá er sá sem tók óverðtryggt lán að greiða síðustu greiðslu af láninu upp á 50 þúsund krónur og sá sem tók verðtryggt lán að borga 63 þúsund. Einstaklingurinn sem leigir hefur alls greitt 51 milljón króna í leigu á þessum tíma, og hann á enga fasteign. Sá sem tók óverðtryggt lán hefur greitt 26 milljónir í vexti og afborganir, og sá sem tók verðtryggt lán hefur greitt 25 milljónir króna,“ sagði Bjarni. Í dæminu hans er miðað við að verðbólga sé eitt prósent. „En það er sú verðbólga sem við höfum haft undanfarið og ætlum að hafa í framtíðinni,“ sagði Bjarni og uppskar hlátur fundargesta, en verðbólga hefur aldrei haldist svo lág yfir lengra tímabil.
Forsendurnar breyti þó ekki grundvallarþáttunum í dæminu, sagði Bjarni. Það sé afar gott að spara fyrir íbúðakaupum og mikilvægt sé að fólk geri sér grein fyrir hvað það þýði að vera á leigumarkaðinum. „Sjálfur er ég mikill talsmaður séreignastefnunnar og trúi því að til lengri tíma sé hún betri valkostur, þótt leigumarkaður þurfi sannarlega að vera til staðar og að hann þurfi að efla.“