Hreinsunarstarf vegna aurskriðanna sem féllu á Seyðisfirði í desember eru á lokametrunum. Vinna við að taka saman kostnað við hreinsun, mælingar, byggingu varnargarða, almannavarnir og uppbyggingu á svæðinu er langt komin. Þrátt fyrir að Náttúruhamfaratryggingar standi straum af stórum hluta kostnaðar er gert ráð fyrir að hlutur ríkisins verði um hálfur milljarður króna.
Þetta kemur fram í minnisblaði um stöðu mála á Seyðisfirði sem lagt var fram á ríkisstjórnarfundi í vikunni. Þar kemur fram að starfshópur undir forystu forsætisráðuneytisins sem skipaður var í kjölfar hamfaranna heimsótti Seyðisfjörð 22. Júní. Hópurinn fundaði m.a. með sveitarstjórn Múlaþings, heimastjórninni á Seyðisfirði og lögreglunni á Austurlandi. Hópurinn fékk m.a. kynningu á stöðu Tækniminjasafnsins, þar sem tekist hefur að bjarga mörgum verðmætum, og á helstu niðurstöðum nýlegrar vinnu ráðgjafarnefndar um færslu húsa í bænum.
Í samantekt forsætisráðuneytisins um efni minnisblaðsins, sem Kjarninn fékk senda frá ráðuneytinu, kemur fram að fasteignaverð í bænum hefur hækkað verulega en mikil eftirspurn er eftir lausu húsnæði. Þar segir einnig að áhyggjur íbúa snúi helst að atvinnumálum og öryggi. Í maí var úthlutað 55 milljónum króna úr Hvatasjóði Seyðisfjarðar í 21 verkefni. Er sjóðurinn hluti af átaki í atvinnuuppbyggingu í bænum sem stjórnvöld styrkja um 215 milljónir króna á næstu þremur árum.
Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfisstjóri Múlaþings, segir í svari til Kjarnans um stöðu ofanflóðavarna á Seyðisfirði að verið sé að vinna frumathugun vegna þeirra á því svæði sem skriðurnar féllu. Vonast er til þess að þeirri vinnu ljúki á árinu en í það minnsta mun koma út áfangaskýrsla. „Þessi vinna hefur verið í fullum gangi síðustu 2-3 árin og hafa ýmsar mælingar og rannsóknir verið gerðar til undirbúnings verkefnisins,“ skrifar Hugrún í svari sínu. Í framhaldi af frumathugun verði farið af stað með umhverfismat, verkhönnun og deiliskipulag áður en verkframkvæmd getur hafist.