Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér sem formaður Eflingar í síðustu viku, segir að hún og hennar nánasta samstarfsfólk hafi strax gert kröfu um menningarlæsi í viðmóti á skrifstofu félagsins eftir að þau tóku við árið 2018. „Þarna unnum við mikið frumkvöðulsstarf. Við fórum strax í það að tryggja að allir fundir sem við höldum yrðu textatúlkaðir. Við förum strax í það að láta þýða fullt af efni. Svo förum við í að útbúa heimasíðuna og „mínar síður“ innan hennar þannig að fólk geti nálgast efni á íslensku, ensku og pólsku. Þetta hefur verið, ásamt okkar markvissu og róttæku kjarabaráttu, þá hefur þetta verið það verkefni sem ég hef verið mjög upptekin af að sé sinnt af fullum heilindum gagnvart félagsfólki Eflingar.“
Þetta kemur fram í viðtali við Sólveigu Önnu sem Kjarninn birti á laugardag. Um helmingur félagsmanna Eflingar eru aðflutt fólk og Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu fyrr í dag að erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hafi fjölgað um 33 þúsund á áratug. Þeir eru nú 14,4 prósent allra landsmanna og flestir setjast að í Reykjavík. Fjölmargir úr þeim hópi starfa í þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu eða í byggingaiðnaði og Efling er þeirra stéttarfélag.
Sólveig Anna segir að það ríki útlendingaandúð í hreyfingunni, en í mismiklum mæli. „Ef það hefði verið viðurkennt að þessi hópur ætti að njóta alls þess sem hann á inni hjá þessari hreyfingu, þá hefði ekki þurft að bíða eftir að ný forysta kæmi. Krafan hafi verið sú að aðflutta fólkið aðlagaði sig að hreyfingunni í stað þess að hreyfingin aðlagaði sig að þeirra stöðu.“
„Þetta fólk á bara að læra íslensku“
Hún segist hafa, ásamt nýrri stjórn Eflingar, ákveðið að nálgast formennsku sína í Eflingu sem verkefni. Það verkefni hafi verið tvíþætt. Annars vegar að gera Eflingu að baráttusamtökum fyrir þá sem greiða félagsgjöldin, verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu. Og hins vegar að taka alla þjónustuna í gegn. „Þegar ég var í þessari kosningabaráttu 2018 þá fór ég af stað með mjög róttæka orðræðu og róttækt platform sem var efnahagslegt fyrst og fremst. En á öllum þeim fundum sem ég fór á og í samtölum við félagsfólk kom það í ljós með mjög skýrum hætti að krafa fólks var sú að þjónusta félagsins yrði mjög rækilega tekin í gegn.“
Sólveig Anna rifjar upp eitt dæmi um þetta verkefni sem mætti þeim strax og hún og Viðar komu til starfa hjá Eflingu. Þá hafi verið haldin starfmannafundur þar sem þau lýstu því að þessar breytingar stæðu til. „Þá var bara hálaunaður starfsmaður skrifstofunnar sem rétti upp hönd og segir „ég er ekki sammála þessu. Þetta fólk á bara að læra íslensku“ og svo framvegis. Þetta viðmót hefur verið mjög raunverulegt innan verkalýðshreyfingarinnar í heild. Þessi fullyrðing mín er mjög auðsannanleg vegna þess að það er ekki fyrr en við komum þarna inn að hreyfingin í heild fór að taka til í þessu mjög markvisst. Að hún fór að viðurkenna og elta okkar fordæmi. Að viðurkenna að þetta aðflutta fólk eru ekki bara einhverjir farandverkamenn og eitthvað fólk sem kemur og fer, heldur sest hérna að og eru þátttakendur í samfélaginu. Að hreyfingin eigi að vera fyrir það og eigi að þjónusta það á allan hátt.“