Lind Freyjudóttir, sambýliskona hlauparans Péturs Sturlu Bjarnasonar, hefur sent Einari Vilhjálmssyni, nýkjörnum formanni Frjálsíþróttasamands Íslands, bréf þar sem hún krefst afstöðu hans í maraþonmálinu svokallaða. Lind kærði, í umboði sambýlismanns síns, Arnar Pétursson Íslandsmeistara karla í maraþoni og sakaði hann um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu, sem fram fór þann 23. ágúst síðastliðinn. Kjarninn hefur fyrrgreind bréf undir höndum.
Kæru vísað frá vegna formgalla
Áfrýjunardómstóll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) tók ekki afstöðu til kæruatriða í maraþonmálinu á dögunum. Í upphaflegri kæru málsins, sem send var yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins eftir að hlaupinu lauk, var Arnar sakaður um að hafa notið liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu, sem hafi verið brot á reglum maraþonsins, og því bæri að ógilda þátttökurétt hans í maraþoninu og svipta hann titlinum.
Í úrskurði yfirdómnefndar var viðurkennt að reglur hlaupsins hafi verið brotnar, Arnari hafi vissulega verið fylgt eftir af hjólreiðamönnum um þrjá fjórðu hluta hlaupaleiðarinna, en kæru málsins var vísað frá þar sem ekki þótti sannað að umræddir hjólreiðamenn hefðu aðstoðað Arnar í hlaupinu. Auk þess hefði sigur hans verið það afgerandi í hlaupinu að fylgd hjólreiðamannanna hefði ekki haft áhrif á úrslit hlaupsins. Arnar var rúmum níu mínútum á undan næsta Íslending í hlaupinu, sem var Pétur Sturla Bjarnason.
Lind kærði niðurstöðu yfirdómnefndar til dómstóls ÍSÍ, sem staðfesti síðar niðurstöðu dómnefndarinnar og vísaði málinu frá. Niðurstöðu dómstóls ÍSÍ var þá áfrýjað til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Þar var niðurstaðan sú að ekki hafi verið rétt í upphafi að kæra niðurstöðu yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins til dómstóls ÍSÍ, þar sem Reykjavíkurmaraþonið, eða Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) sem annast framkvæmd hlaupsins og yfirdómnefndin heyrir undir, hafi ekki verið aðili að málinu. Kærendum virðist því hafa orðið á mistök í málinu með því að skjóta ekki upprunalegu kæru málsins til dómstóls ÍSÍ. Málinu var því vísað frá enn á ný, núna sökum formgalla.
Upphaflegir kærendur hyggjast ekki kæra meint svindl Arnars Péturssonar til dómstóls ÍSÍ og er málinu því lokið af þeirra hálfu.
Vísa í siðareglur FRÍ
Í fyrrgreindu bréfi sem Lind Freyjudóttir sendi formanni FRÍ er vakin athygli formannsins á siðareglum frjálsíþróttasambandsins. Í bréfinu er vísað til fjögurra greina siðareglnanna þar sem kveðið er á um að íþróttafólk virði alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika (Fair Play) í íþróttum, fari ætíð að keppnisreglum, virði tímamörk og önnur atriði varðandi framkvæmd íþróttamóta, sýni öðrum iðkendum virðingu, jafn samherum sem keppinautum, og sé ávallt til fyrirmyndar varðandi framkomu, jafnt utan vallar sem innan, og hafi hugfast að það sé fyrirmynd yngri iðkenda.
Í niðurlagi bréfsins til formanns FRÍ segir: "Spurning mín er einföld: Hver er afstaða þín í þessu máli - er þetta framkoma sem FRÍ stendur fyrir?"
Bréfið var sent Einari Vilhjálmssyni formanni FRÍ 8. október síðastliðinn, en hann hefur ekki enn svarað bréfinu.