Búið er að stefna íslenska ríkinu og fyrirtækinu Silicor Material, sem hyggst byggja upp kísilverksmiðju á Grundartanga. Að henni standa umhverfissamtök, bændur á áhrifasvæði framkvæmdanna, íbúar og Kjósahreppur. Þess er krafist að ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að kísilverksmiðjan þurfi ekki að fara í umhverfismat, verði ógild.
Þetta kemur fram í stefnunni, sem birt er hér meðfylgjandi.
Verksmiðja Silicor mun, fullbúin, framleiða sextán þúsund tonn af sólarkísli sem notaður er í sólarrafhlöð en þau eru nýtt til að framleiða rafmagn. Megnið af framleiðslunni verður fyrir Kínamarkað, samkvæmt áætlunum fyrirtækisins, sem fjármögnun verkefnisins byggir á. Gert er ráð fyrir að um 450 starfsmenn verði í verksmiðjunni í fullum afköstum, þar af mun þriðjungur þeirra starfa verða fyrir háskólamenntuð störf.
Um miðjan september var tilkynnt um að fjármögnun fyrri hluta verkefnisins væri lokið. Íslenskir fagfjárfestir, lífeyrissjóðir þar á meðal, leggja til sex milljarða og erlendir fjárfestar, aðallega þýsk og bandarísk fyrirtæki, átta milljarða.
Davíð Stefánsson, talsmaður Silicor Materials á Íslandi, segir að engin stefna hafi enn verið birt forstjóra Silicor. En komi til hennar, þá muni það ekki hafa áhrif á framgang verkefnisins. Um sé að ræða verkefni sem sé upp á 120 milljarða króna, og meginstyrkur þess sé sá, að það hlífi umhverfi og náttúru með „nýrri framleiðslutækni.