Kría, hvatasjóður á vegum íslenska ríkisins sem fjárfestir í vísisjóðum sem settur var á fót 2019, mun fjárfesta í þremur íslenskum sérhæfðum fjárfestingarsjóðum fyrir samtals 2,2 milljarða króna á næstu árum. Sjóðirnir eru Eyrir Vöxtur, Frumtak 3 og Crowberry II. Fjárfest verður fyrir 810 milljónir króna í Frumtaki 3 og Crowberry II og fyrir 620 milljónir króna í Eyri Vexti.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Kríu.
Í tilkynningunni segir: „Eyrir Vöxtur er sex milljarðar króna að stærð og í umsýslu Eyrir Venture Management. Sjóðurinn mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem komin eru með vöru eða þjónustu, byrjuð að afla tekna og eru með góða vaxtarmöguleika. Frumtak 3 er sjö milljarðar króna að stærð, í umsýslu Frumtak Venture, og mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum. Crowberry II er 11,5 milljarðar króna að stærð, í umsýslu Crowberry Capital, og mun fjárfesta í íslenskum og norrænum tækni-sprotafyrirtækjum.“