Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og prófessor við Lyfjafræðideild, hefur þegið boð um að verða gestaprófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Bandaríkjunum þegar hún lýkur störfum sem rektor HÍ síðar á þessu ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.
Þar mun Kristín starfa í tengslum við tvær stofnanir innan MIT. Annars vegar er um að ræða Stofnun í stafrænni kennslu og edX, sem er samstarfsnet MIT og yfir 40 annarra háskóla og stofnana víðs vegar um heim.
Kristín verður áfram stjórnarmaður í háskólaráði Háskólans í Lúxemborg eftir að hún lætur af störfum sem rektor Háskóla Íslands, og þá mun hún einnig starfa áfram að verkefnum fyrir Samtök evrópskra háskóla.
Einar Sigurðsson, eiginmaður Kristínar og forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), tilkynnti fyrir helgi að hann hyggist hætta sem forstjóri MS 30. júní næstkomandi. Í tilkynningu frá MS um starfslok Einars, kemur fram að hann muni vinna fyrir hönd Mjólkursamsölunnar að uppbyggingu nýs fyrirtækis með hópi fjárfesta til framleiðslu og sölu á skyri í Bandaríkjunum.