Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri 365 miðla, segir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra vera töm „þessi furðulega blanda af samsæriskenningasmíð og viðkvæmni“ og sú blanda hafi birst í grein ráðherrans í Fréttablaðinu á miðvikudag. Kristín svarar umræddri grein í leiðara í blaðinu í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kallaði tvo blaðamenn Fréttablaðsins, þau Kolbein Óttarsson Proppé og Snærós Sindradóttur, fulltrúa stjórnarandstöðuflokka í kjallaragrein í Fréttablaðinu á miðvikudaginn.
Greinin fjallar að mestu um leiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar, en í henni segir hann meðal annars að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna „hvort heldur þeir tjá sig á þingi eða á leiðarasíðu Fréttablaðsins, eiga erfitt með að sætta sig við velheppnaða leiðréttingu. Tveir hinna herskárri skrifa um málið á síðunni í gær. Stjórnarandstöðudálkurinn „Frá degi til dags“ heldur fram þeim hreinu ósannindum að leiðréttingin renni að mestu til hátekjufólks (raunin er þveröfug -ólíkt 110% leiðinni) og í leiðara er fullyrt að fjármagn til leiðréttingarinnar hafi ekki verið sótt til kröfuhafa eins og lofað hafði verið. Hvernig menn geta fengið þetta út er mér hulin ráðgáta.“
Dálkinn „Frá degi til dags“, sem birtist á leiðarasíðu Fréttablaðsins á þriðjudag, skrifaði Snærós Sindradóttir. Leiðara blaðsins þann dag skrifaði Kolbeinn Óttarsson Proppé.
„Fjölmargir blaðamenn starfa hjá 365. Þar fer mislit hjörð með mismunandi skoðanir. Eftir því sem flóran er fjölbreyttari er von á betri árangri. Margir skrifa pistilinn Frá degi til dags. Aldrei hefur nokkurt þeirra verið spurt um hvað eða hvort yfir höfuð þau kjósa. Ógerlegt er að skipa þessu fólki á einn pólitískan bás,“ skrifar Kristín meðal annars í dag.
Hún segir að fagfólk láti ekki skoðanir lita umfjöllun sína í fréttum. „Að halda öðru fram er atvinnurógur. Um dálkaskrif og leiðara gilda önnur lögmál. Maður skyldi ætla að forsætisráðherra þekkti þau.“
Þá segir Kristín að Sigmundur Davíð og flokkssystkini hans hafi lengi haft horn í síðu Ríkisútvarpsins og því sé Fréttablaðið ekki eini miðillinn sem flækist fyrir forsætisráðherra.
„Við afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur dró Sigmundur heldur ekki þann lærdóm að vanda þyrfti meðferð valds, heldur að ástæða væri til að hafa áhyggjur af umræðunni – eins og umræðan hefði brotið á hælisleitendunum. Samflokksmenn hans kynda undir. Karl Garðarsson alþingismaður segir forsætisráðherra verða fyrir pólitísku einelti og hatursumræðu.“
Þetta háttalag segir Kristín undarlegt, ráðherrann hafi mörg vopn á hendi til að snúa aðstæðum sér í vil. „Sigmundur er sá íslenski stjórnmálamaður sem helst getur stært sig af því að standa við stóru orðin. Vilji hann vinna annan kosningasigur þarf hann að minna kjósendur á eigin orðheldni. Það hlýtur að vera vænlegra til árangurs en að kveinka sér stanslaust undan umræðunni.“