Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem verið hefur forseti Alþýðusambands Íslands frá því að Drífa Snædal sagði af sér embættinu í byrjun ágústmánaðar, ætlar ekki að gefa kost á sér til þess að leiða sambandið áfram. Frá þessu sagði hann í færslu á Facebook í morgun, en áður hafði hann sagt að hann væri að íhuga framboð til forseta á þingi ASÍ, sem fram fer í október.
Kristján Þórður, sem er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, ætlar þó áfram að gefa kost á sér til forystu í ASÍ, sem 1. varaforseti.
Í færslu sinni segir hann að það hafi reynst áhugavert verkefni að starfa sem forseti ASÍ undanfarinn tæpan mánuð.
„Það að stuðla að auknu samtali á milli ólíkra hópa innan ASÍ hefur verið mjög gefandi og augljóst að verkalýðshreyfingin á spennandi tíma fyrir höndum. Ég hef átt mörg góð samtöl við fólk víða í samfélaginu um þetta verkefni og fengið miklar hvatningar fram á við. Ég hef því þurft að gera upp við mig hvað ég hyggist gera á næstu mánuðum en sú ákvörðun er að sjálfsögðu verulega flókin þar sem verkefnin eru spennandi bæði það að starfa fyrir Rafiðnaðarsamband Íslands sem og að vinna fyrir stærstu heildarsamtök launafólks á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Kristján Þórður í færslu sinni.
Hann bætir því við að verkefnin framundna hjá Rafiðnaðarsambandinu séu gríðarlega stór og gefandi, bæði gerð kjarasamninga auk annarra verkefna í daglegu starfi sambandsins sem komi inn á hans borð.
„Ég hef því ákveðið að gefa ekki kost á mér í embætti forseta ASÍ að svo stöddu heldur einbeita mér að verkefnum RSÍ. Ég mun þó áfram gefa kost á mér til þátttöku í forystu ASÍ sem 1. varaforseti enda mikil þörf á að tryggja að rödd iðn- og tæknifólks heyrist innan heildarsamtakanna,“ skrifar Kristján Þórður.
Með þessari ákvörðun bætist Kristján Þórður í þann hóp verkalýðsforingja sem hafa útilokað að bjóða sig fram til forsetaembættis ASÍ.
Áður voru þau Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness búin að tilkynna opinberlega að þau hyggist ekki bjóða sig fram til embættisins.
Sá síðarnefndi sagði við það tækifæri að hann myndi styðja Ragnar Þór Ingólfsson formann VR til forystu í Alþýðusambandinu, en enn sem komið er hefur Ragnar Þór ekki staðfest að hann ætli að gefa kost á sér í forsetaembættið.