Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir að samfélag jafnra tækifæra sé að „renna okkur úr greipum“ vegna þess stjórnarfars sem sé við lýði hér á landi.
Þetta kom fram í ræðu hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Vísaði hún í nýtt mánaðaryfirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem birt var í dag og Kjarninn fjallaði um en í því er umfangsmikil umfjöllun um húsnæðisstuðning ríkissjóðs sem byggir á sérkeyrslum sem fengnar eru úr skattagögnum.
Húsnæðisstuðningur runnið frá tekjulægstu hópunum yfir til þriggja tekjuhæstu tíundanna
Kristrún sagði að tölurnar sýndu hvernig húsnæðisstuðningur hefði á undanförnum áratug runnið frá tekjulægstu hópunum yfir til þriggja tekjuhæstu tíundanna.
„Niðurstöðurnar eru sláandi. Ríkisstjórnin hefur markvisst fært fjármuni úr vaxtabótakerfinu yfir í úrræði sem gerir fólki kleift að nýta séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða inn á húsnæðislán. Þetta hljómar mjög saklaust en þetta er veruleg stefnubreyting í okkar velferðarsamfélagi því að langstærsti hluti þessa skattafsláttar, rúmlega 30 milljarðar króna frá árinu 2015, nýtist tekjuhæstu 30 prósent landsmanna. Helmingur af úrræðinu rennur til tekjuhæstu 10 prósent í landinu.
Hversu oft höfum við hlustað á ræður stjórnarliða um mikilvægi þess að forgangsraða fjármunum? Þvílík hræsni. Vaxtabótum sem nýttust tekjulágu fólki og ungu fólki var skipt út fyrir 30 milljarða króna skattafslátt til einstaklinga í efri hluta tekjustigans, 30 milljarðar sem aðallega fara til fólks yfir fertugu þrátt fyrir að húsnæðisvandinn sé meðal ungs fólks og tekjulágs fólks,“ sagði Kristrún.
Benti hún á að ríkisstjórnin þyrfti ekki að bera ábyrgð á þessum 30 milljörðum því þetta væru framtíðarskatttekjur.
„Á hverjum mun þetta 30 milljarða króna tekjutap í framtíðinni bitna? Jú, unga fólkinu sem hæstvirtur fjármálaráðherra er alltaf að tala um að treysti á svokallað útgjaldaaðhald ríkissjóðs vegna framtíðarskulda, sama unga fólkinu og þurfti að skuldsetja sig margfalt fyrir fyrstu eign vegna markvissrar stefnu ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug, að beina fjármagni frá þeim sem virkilega þurfa í almenn úrræði á húsnæðismarkaði sem pumpa upp húsnæðisverð. Samfélag jafnra tækifæra er að renna okkur úr greipum vegna þessa stjórnarfars,“ sagði hún að lokum.