Króatía hefur opnað landamæri sín við Serbíu á nýjan leik, þar sem um þúsundir flóttamanna hafa verið fastir í kulda og blautu veðri. Króatar höfðu reynt að takmarka för flóttamanna um helgina, þegar Ungverjar lokuðu suðurlandamærum sínum og Slóvenar hertu einnig sínar reglur og takmörkuðu fjölda flóttamanna við 2.500 manns á dag. Enn eru margir strand við landamæri Króatíu og Slóveníu.
Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hafði sagt ástandið í landamærabænum Berkasovo í Serbíu hræðilegt. Um tíu þúsund manns hefðu verið föst í Serbíu. Þar væru mörg lítil börn, fatlað fólk og veikt fólk. „Þetta er ekki staður fyrir fólk, þau geta ekki sofið, þau bara standa upprétt í leðjunni. Við verðum að finna aðra lausn,“ segir Melita Sunjic, talskona flóttamannahjálparinnar við BBC. „Þetta er eins og stórfljót af fólki, og ef þú stöðvar streymið þá flæðir einhvers staðar. Það er það sem er að gerast núna,“ hefur Guardian eftir henni.
Fólkið sem um ræðir er flest komið frá Grikklandi til Makedóníu og Serbíu, þaðan sem það vill komast norðar í Evrópu, flestir til Austurríkis og Þýskalands.