Ásgeir Brynjar Torfason þarf ekki að víkja sem meðdómari í Marple-málinu svokallaða eins og Hreiðar Már Sigurðsson, sakborningur í málinu, hafði farið fram á. Úrskurður var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más, hafði farið fram á það að Ásgeir viki sæti í málinu, meðal annars á þeim forsendum að hann situr í stjórn samtakanna Gagnsæis, sem hafa það yfirlýsta markmið að berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Auk þess voru ýmis ummæli Ásgeirs Brynjars í þjóðmálaumræðu undanfarinna ára sem og greinarskrif hans sögð draga úr hlutleysi hans sem dómara. Kjarninn greindi frá þessu á mánudag.
Vísir greindi einnig frá málinu og því að meðal þess sem Hreiðar notaði sem rökstuðning eru ummæli Ásgeirs í myndbandsbloggi hjá Teiti Atlasyni, nafnlaus grein á bloggi Egils Helgasonar sem Hreiðar telur að Ásgeir hafi skrifað og færslur á Facebook sem hann hefur látið sér líka við.
„Það eru til að mynda engin rök fyrir því að seta meðdómandans í stjórn samtakanna Gagnsæi, sem berjast gegn spillingu, hafi áhrif á hlutlægni hans. Flest samfélög reyna nú að uppræta spillingu. Slík stjórnarseta ætti því að vera litin jákvæðum augum hvort sem er af ákæruvaldinu og ákærðu,“ sagði Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari þegar krafan var tekin fyrir í gær, að því er fram kom á Vísi. Hún sagði líka að ummæli hefðu verið tekin úr samhengi í kröfunni.
Höfðu allir áður samþykkt meðdómarann
Sakborningar í Marple-málinu höfðu áður allir samþykkt Ásgeir Brynjar sem meðdómara í málinu. Hann er lektor við Háskóla Íslands og kennir fjármál, bókhald og greiningu ársreikninga. Hann lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla í fyrra og fjallaði doktorsritgerð hans um flæði fjármagns í bankakerfinu en rannsóknin byggði á mismunandi aðferðum og samspili fjármála, peningahagfræði og reikningsskilareglna. Ásgeir Brynjar var einn umsækjenda um starf seðlabankastjóra þegar það var auglýst til umsóknar árið 2014.
Ef úrskurðað hefði verið að Ásgeir þyrfti að víkja sæti hefði aðalmeðferð í málinu þurft að fara fram á ný, en henni var lokið. Dómur í málinu verður kveðinn upp á næstu dögum.
Snýst um tilfærslu á átta milljörðum til Skúla Þorvaldssonar
Fjórir eru ákærðir í Marple-málinu, þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri bankans í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson fjárfestir.
Hreiðar Már og Guðný Arna eru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús er ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli er ákærður fyrir hylmingu. Málið snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki. Hin ákærðu eiga yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði þau fundin sek.
Alls hefur embætti sérstaks saksóknara ákært þá Hreiðar Má og Magnús fjórum sinnum. Hreiðar Már hefur tvívegis verið dæmdur sekur í málum gegn honum, þótt annað þeirra mála eigi enn eftir að fara fyrir Hæstarétt. Magnús hlaut dóm í Al Thani-málinu en var sýknaður í stóra markaðsmisnotkunarmálinu tengt Kaupþingi fyrr á þessu ári. Báðir afplána þeir nú langa fangelsisdóma á Kvíabryggju.