Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu frá Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) um að greiðslukortafyrirtækið Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu upp á 10,3 milljarða króna auk vaxta.
Í tilkynningu frá Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni Valitor segir að niðurstaðan hafi verið fyrirséð enda hafi "engin lögvarin skaðabótakrafa að baki málatilbúnaði Datacell og SPP. Auk þess er fjárhagsleg staða Valitor mjög sterk og fyrirtækið fullkomlega fært um að greiða allt sem því ber."
Segir kröfugerðina farsakennda
Fyrirtækin tvö, Datacell og Sunshine Press, sáu um að halda utan um styrktarfé til handa Wikileaks. Valitor lokaði fyrirvaralaust greiðslugátt fyrir styrki til Wikileaks árið 2011. Hæstiréttur staðfesti í apríl árið 2013 að Valitor hafi verið óheimilt að loka fyrir styrki til Wikileaks með þessum hætti, og gerði greiðslumiðlunarfyrirtækinu að opna greiðslugáttina að nýju að viðlögðum dagsektum.
Fyrirtækin Datacell og Sunshine Press Productions fengu Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til að áætla tjón sitt vegna lokunar greiðslugáttarinnar. Sigurjón áætlaði að tjónið gæti numið frá einum og upp í átta milljarða króna.Í kjölfarið kröfðust fyrirtækin tvö þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu sem hljóðar upp á 10,3 milljarða króna auk vaxta.
Í tilkynningu Sigurðar G. segir að upphæð gjaldþrotskröfunnar hafi vakið sérstaka athygli í ljósi þess að Datacell og SPP hafi ekki, samkvæmt ársreikningum, haft neinar tekjur á síðustu árum. Það sæti því undrun að félög sem ekki hafi haft tekjur geti orðið fyrir tjóni sem nemur milljörðum króna. "Valitor lítur það mjög alvarlegum augum að fyrirtæki á borð við Datacell og SPP, komist upp með að nýta sér nýtilkomna glufu í íslenskum lögum til að leggja fram gjaldþrotskröfu, sem er algerlega órökstudd og í engu samræmi við tilefnið. Farsakennd kröfugerð af þessu tagi á hvorki heima í íslensku dómskerfi né íslensku viðskiptaumhverfi."