Meirihluti kröfuhafa Glitnis samþykkti í dag að greiða stöðugleikaframlag til ríkissjóðs Íslands og uppfylla auk þess önnur skilyrði fyrir gerð nauðasamninga. Að sögn Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar Glitnis, nemur stöðugleikaframlagið að minnsta kosti 200 milljörðum króna. Hvort það verði enn hærra ráðist af utanaðkomandi atriðum sem skýrast þegar fram vindur. Greint er frá niðurstöðu kröfuhafafundarins á vef RÚV.
Á fundinum í dag var jafnframt ákveðið að stofna sérstakan skaðleysissjóðs en slitastjórn fór fram á að slíkur sjóður yrði stofnaður. Í samtali við RÚV segir Steinunn að hlutverk sjóðsins sé að þeir aðilar sem stýrt hafa búinu, slitastjórn og aðrir starfsmenn, verði ekki persónulega ábyrgir vegna þeirra ákvarðana sem hafa verið teknar undir slitameðferðinni. Stærð sjóðsins nemur tíu milljörðum króna.