Kröfuhafar stærstu föllnu bankanna hafa undirritað viljayfirlýsingu þar sem þeir undirgangast þau stöðugleikaskilyrði sem sett hafa verið fram af hendi stjórnvalda. Um er að ræða skilyrði sem ná yfir 900 milljarða króna eignir þeirra. Þetta kom fram í kynningu sem Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson, varaformenn framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta, halda nú í Hörpu á aðgerðum stjórnvalda til þess að losa um fjármagnshöft. Þótt viljayfirlýsingin liggi fyrir er það þó, að sögn þeirra ,einungis eitt skref í átt að slitabúin gangi að skilyrðum stjórnvalda. Engin afsláttur verði gefin á skilyrðunum.
Fyrr í kynningunni hafði komið fram að slitabúum föllnu bankanna verður boðið að ljúka nauðasamningi fyrir árslok. Til þess að geta það þurfa þau að fá undanþágu frá fjármagnshöftum. Til þess að fá slíka undanþágu þurfa slitabúin að gangast við ákveðnum stöðugleikaskilyrðum og greiða ákveðið stöðugleikaframlag. Samkvæmt því fá slitabúin valfrjálst þann möguleika að greiða upphæð sem er svipuð að umfangi og það fé sem stöðugleikaskattur myndi innheimta, eða 850 milljarðar króna. Ef slitabúin mæta ekki þessum skilyrðum verður lagður á stöðugleikaskattur sem er 39 prósent á heildareignir fallinna viðskiptabanka eða sparisjóða. Sá skattur á að skila um 850 milljörðum króna, eða 682 milljörðum króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar.