Þeir Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem situr í slitastjórn Kaupþings, og Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda lögfræðistofunnar Logos, munu að öllum líkindum taka sæti í stjórn Kaupþings eftir að nauðasamningur slitabús hans verður samþykktur. Í Morgunblaðinu er greint frá því að lykilaðilar í hópi kröfuhafa Kaupþings hafi lagt fram tillögu þess efnis, en alls verða fimm einstaklingar í stjórninni.
Kaupþing hefur þegar samþykkt að greiða 120 milljarða króna í svonefnt stöðugleikaframlag til ríkissjóðs. Í staðinn á búið að fá undanþágu frá fjármagnshöftum til að ljúka nauðasamningi sínum og greiða kröfuhöfum út það fé sem safnast hefur upp í slitameðferð bankans sem staðið hefur yfir frá haustinu 2008. Umtalsverðar eignir eru enn í slitabúi Kaupþings sem eftir á að umbreyta í lausafé og því mun vinnu við umsýslu þeirra eigna ekki ljúka þegar nauðasamningurinn liggur fyrir. Á meðal þeirra eigna sem Kaupþing heldur á sem stendur er hinn íslenski Arion banki.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru mun meiri líkur en minni á því að Kaupþing fái undanþágu frá fjármagnshöftum og fái þar með að ljúka nauðasamningi. Sömu sögu er að segja af slitabúi Landsbankans en meiri óvissa ríkir um slitabú Glitnis, sem á að greiða stærstan hluta stöðugleikaframlags til ríkissjóðs, alls um 200 milljarða króna.
Nauðsynlegt að fá Íslendinga
Í Morgunblaðinu segir að stærstu kröfuhafar slitabús Kaupþings, þeir hinir sömu og sömdu við íslensk stjórnvöld um greiðslu stöðugleikaframlags til að komast hjá greiðslu stöðugleikaskatts, stýri vinnu við skipun stjórnarinnar. Þar segir að kröfuhafar telji nauðsynlegt að velja tvo stjórnarmenn inn í félagið "sem hafi yfirsýn og þekkingu á starfsemi þess og að þar hafi íslenskir sérfræðingar forskot á aðra sem til greina komi í stjórnarsætin".