Ef einstaklingur greiðir ekki af láni og lánveitandi gerir kröfu um endurgreiðslu sem ekki er brugðist við, þá getur það endað með skráningu á vanskilaskrá. „Ef hann getur ekki borgað þá er krafan á vanskilaskrá í fjögur ár og afskráist að þeim tíma liðnum. Ef hann borgar kröfuna þá eru sendar upplýsingar til CreditInfo frá kröfuhafa og málið er afskráð,“ sagði Bergdís Margrétardóttir hjá CreditInfo í síðasta þætti Ferðar til fjár á RÚV. Helgi Seljan, annar umsjónarmanna þáttanna, spurði hana þar hvað gerist fyrir vin hans ef sá getur ekki borga útistandandi reikning.
Ef um mistök er að ræða þá fer málið út af vanskilaskrá, sagði Bergdís. „Og ef það er ágreiningur um kröfuna þá fer það fyrir dóm. Ef krafan er dæmd ógild þá er málið tekið út af vanskilaskrá,“ sagði hún.
Samkvæmt greiningardeild CreditInfo þá eru um 27 þúsund manns á vanskilaskrá. Árið 2014 voru 540 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir voru á RÚV. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.