Greiningardeild Arion banka telur að undirliggjandi þættir í hagkerfinu muni styðja við gengi krónunnar á næstu misserum. Þetta er eitt að því sem kemur fram í uppfærðri hagspá. Viðvarandi óvissa sé þó um losun fjármagnshafta.
„Þó að skammtímasveiflur eftir afnám hafta gætu átt sér stað er líklegt að krónan eigi inni nokkra styrkingu til lengri tíma, enda hefur Seðlabankinn lagst þungt gegn styrkingu síðastliðið ár. Mikil styrking krónunnar væri þó ekki endilega ákjósanleg sökum þess að nauðsynlegt er að viðhalda viðskiptaafgangi næstu árin svo unnt verði að þjónusta erlendar skuldir þjóðarbúsins,“ segir í texta frá greiningardeild Arion banka, en hún kynnti hagspá sína í dag og fór yfir ýmsa þætti sem finna má í hagkerfinu. Uppfærð hagspá gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði á bilinu tvö til þrjú prósent á þessu ári.
Farið var yfir þá þætti sem talið er að muni lita fjármálamarkaði í ár, í kynningu sérfræðinga greiningardeildar bankans. Þegar litið er á framboð og eftirspurn á fjármálamörkuðum bendir margt til þess að árið verði fremur hagfellt á eignamörkuðum, að mati greiningardeildarinnar.
Frekar lítið framboð er af verðtryggðum skuldabréfum og er eftirspurnin meiri en framboðið. „Óverðtryggð eiga frekar undir högg að sækja um þessar mundir en áhyggjur fjárfesta af kjarasamningum og aukinni verðbólgu fara vaxandi. Hvað hlutabréfamarkaðinn varðar eru arðgreiðslur skráðra félaga á markaði fyrirferðamiklar og er því eftirspurnin á hlutabréfamarkaði meiri en framboðið að okkar mati. Þróun fjármálamarkaða mun að miklu leyti litast af því hver niðurstaða kjarasamninga verður og hvort og þá hvernig skref verða stigin í átt að afnámi gjaldeyrishafta.“