Knattspyrnusamband Íslands ætlar að kjósa jórdanska prinsinn Ali bin al Hussein sem forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, á morgun. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, staðfesti þetta við Viðskiptablaðið.
„Ég var að koma af fundi með forseta UEFA og öllum knattspyrnusamböndum Evrópu og það er sameiginleg niðurstaða okkar að styðja Michel Platini um að kjósa prins Ali á morgun,“ sagði Geir. Öll 54 knattspyrnusamböndin í Evrópu, þar á meðal fulltrúar KSÍ, funduðu í Zurich í Sviss í dag til að ræða spillingarmálin sem komin eru upp á yfirborðið. Í gær voru níu háttsettir menn innan FIFA handteknir og ákærðir í Bandaríkjunum fyrir mútuþægni, peningaþvætti og fleira. Á morgun á að hefjast aðalfundur sambandsins þar sem Blatter er í framboði til áframhaldandi setu sem forseti, gegn Ali.
Platini sagði að loknum fundi knattspyrnusambandanna í Zurich í Sviss fyrir skömmu að mikill meirihluti knattspyrnusambanda í Evrópu ætlaði að styðja prinsinn gegn sitjandi forseta, Sepp Blatter. Hann sagðist telja að það væri góður möguleiki á því að Blatter tapi forsetakjörinu á morgun. Ef Blatter hins vegar sigrar í kosningunni gætu samskipti UEFA við FIFA verið í uppnámi.
„Ef herra Blatter verður forseti mun UEFA hittast í Berlín til að ræða framtíð samskipta okkar við FIFA. Gæti UEFA dregið sig út úr FIFA? Auðvitað,“ sagði Platini.