Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands segja að raunverð á mjólkurvörum hafi lækkað á árabilinu frá 2003 til 2013, og því veki það athygli, að „þrátt fyrir þennan árangur“ þá séu í skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands gerðar „tillögur að breytingum sem kollvarpa núverandi fyrirkomulagi mjólkurframleiðslu.“
Í tilkynningu frá Landssambandi kúabænda og Bændasamtökunum segir að verð á mjólkurvörum hafi verið hagfelld neytendum, og því hefði átt að vera gert hærra undir höfði í skýrslu Hagfræðistofnunar. Í skýrslunni segir meðal annars að ríkið og neytendur hafi greitt átta milljarða á ári með mjólkurframleiðslu.
„Í skýrslunni segir að raunverð á nýmjólk, rjóma, skyri, jógúrt, smjöri og osti hafi verið lægra árið 2013 en 2003. Kemur fram að þó svo verð á mjólkurvörum fari hækkandi hafi það ekki haldið í við þróun á vísitölu neysluverðs. Einnig að 70% matvara á þessu tímabili, 2003 til 2013, hækkaði meira en sú mjólkurafurð sem hækkaði mest. Aðeins 10% matvara hækkuðu minna í verði. Athygli vekur að þrátt fyrir þennan árangur eru í skýrslunni gerðar tillögur að breytingum sem kollvarpa núverandi fyrirkomulagi mjólkurframleiðslu,“ segir tilkynningunni.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir að hagkvæmni hafi aukist, og vilja kúabændur að horf sé meira til þessara þátta. „Hagkvæmni hefur aukist mikið í rekstri íslenskra kúabúa undanfarin ár. Meðalnyt á hverja íslenska kú jókst um nálægt 45% frá 1994-2012, en áður hafði hún lítið aukist í áratugi,“ segir í skýrslunni og vitna kúabændur sérstaklega til þess að hagræðingin hafi skilað sér til neytenda. „Á móti kemur fram í skýrslunni að auka þurfi möguleika til nýliðun í greininni og auka skilvirkni greiðslna úr ríkissjóði þannig að þær skili sér betur til bænda. Þessi atriði þarf að taka til nánari skoðunar sem og ýmis önnur atriði skýrslunnar í komandi búvörusamningum,“ segir í tilkynningunni.