Fyrir helgi kom Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í viðtal á Bylgjunni. Þar kvartaði hann undan neikvæðri umræðu um heilbrigðiskerfið og umfjöllun fjölmiðla um ástandið. Umræðan hafi verið neikvæð síðustu fimm ár, en „dómsdagsspár síðustu ára“ hafi nú ekki gengið eftir, og enn væri verið að reka heilbrigðiskerfi á Íslandi. Það sé þó búið að halda þessu að Íslendingum og fólk sé „orðið skíthrætt“ við stöðuna í kerfinu.
Förum nú tvö ár aftur í tímann. Kristján Þór var frekar nýsestur í stól heilbrigðisráðherra þann 11. júlí 2013. Þá stakk hann niður penna í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Teflt á tæpasta vað í heilbrigðisþjónustunni“ og sagði meðal annars: „Það hefur lengi verið opinbert leyndarmál að íslenskum heilbrigðisstofnunum er haldið í fjársvelti. […] Það eina sem hefur komið í veg fyrir stórslys er aðhald og mikil útsjónarsemi starfsmanna heilbrigðiskerfisins í þessari vonlausu glímu við krónískan halla og erfiðleikarnir aukast ár frá ári.“
Þá sagði hann einnig að það vantaði um 8.600 milljónir króna á árinu 2013 til að leysa fjárhagsvanda spítalans. „Nú er svo komið að lengra verður ekki haldið nema að eitthvað láti undan. Álag á starfsfólk eykst, þjónusta við sjúklinga versnar og öryggi þeirra er ógnað. Hætta á miklum atgervisflótta úr öflugri sveit heilbrigðisstarfsfólks er raunveruleg og er þegar hafin.“
Litlu fyrr, eða 25. júní 2013, lýsti hann því yfir í þinginu að „við erum í bullandi vandræðum með að reka núverandi heilbrigðiskerfi.“ Í ágúst sama ár sagði hann við Viðskiptablaðið að heilbrigðiskerfið væri ekki sjóklárt og ekki tilbúið til að þola ágjöf eða erfiðleika. Það þyrfti að koma því í viðunandi horf. Í september 2013, sagði hann í kvöldfréttum RÚV, í viðtali um fjárlög og heilbrigðismál: „Ég hef lengi haft áhyggjur af þessu mikla niðurrskurði sem hefur verið“.
Svo kom október, ráðherrann búinn að vera í embætti aðeins lengur og þá fór að koma annað hljóð í strokkinn. Á aðalfundi Læknafélags Íslands hélt ráðherrann ræðu og sagði „stóru orðin hafa ekki verið spöruð og umræðan að mínu viti verið heldur lausbeisluð á köflum. Ég geri ekki lítið úr þeim vanda sem við er að fást en ég óska eftir málefnalegri umfjöllun.“
Það er þetta með steina og glerhús.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.