Næsta sumar verður kvikmyndin Straight Outta Compton, sem segir sögu rapphljómsveitarinnar N.W.A (sem stendur fyrir Niggaz Wit Attitudes), frumsýnd. Hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda er almennt talið að fyrsta plata hljómsveitarinnar, sem er samnefnd kvikmyndinni, hafi markað upphaf bófarappsins (e. gangsta rap) og þar með valdið straumhvörfum í hip hop tónlist þegar hún kom út í ágúst 1988.
http://youtu.be/TMZi25Pq3T8
Textar sveitarinnar voru mikið gagnrýndir fyrir að varpa dýrðarljóma á klíkuofbeldi, fíkniefnaneyslu og hinn harðneskjulega heim glæpamannsins í fátækari hverfum Los Angeles borgar. Hljómsveitin var einnig sögð ýta undir ofbeldi gagnvart lögreglunni og mála upp mynd af henni sem höfuðóvini blökkumanna sem bjuggu í þessum hverfum, og var þá sérstaklega vísað til lagsins „Fuck tha Police“sem naut mikilla vinsælda. Platan hefur selst í yfir þremur milljónum eintaka.
Straight Outta Compton hefur hins vegar vaxið mjög í áliti hjá tónlistarpressunni á undanförnum árum og var meðal í 144 sæti á lista Rolling Stones yfir bestu plötur allra tíma og náði inn á lista Time tímaritsins yfir 100 bestu plötur sem búnar hafa verið til.
Ævintýralegur uppgangur Ice Cube og Dr. Dre
Síðasta plata N.W.A kom út árið 1991 en valdir meðlimir hennar hafa heldur betur haldið áfram að gera fína hluti. Ice Cube, sem samdi flesta textanna á Straight Outta Compton, hefur náð frægð og frama bæði sem sóló-tónlistarmaður og ekki síður sem leikari þar sem hann hefur komið fram í myndum á borð við Boyz n the Hood, Trespass og Friday.
En sá sem hefur náðst lengst allra er Dr. Dre. Hann er í dag langríkasti hip-hop listamaður veraldar og ber ábyrgð á listamönnum á borð við Eminem, 50 cent og Snoop Dog. Auk þess stofnaði hann Beats Electronics árið 2006 sem framleiðir í dag vinsælustu heyrnartól veraldar. Apple keypti fyrirtækið á um þrjá milljarða dali í fyrra, eða um 370 milljarða króna. Talið er að Dr. Dre hafi átt um 15 prósent hlut í fyrirtækinu á þeim tíma.
Uppgangur þessarra tveggja af meðlimum N.W.A, sem báðir koma úr fátækum úthvefum Los Angeles, eykur því enn á dulúðina og spennuna í kringum hljómsveitina. Og auðvitað eftirspurnina eftir myndinni um mótun hennar Hægt er að sjá glænýja stiklu úr myndinni hér að neðan.
http://youtu.be/YVKjM2YYKXA