Aðsókn að kvikmyndum í fullri lengd á landinu öllu hefur minnkað um 16 prósent frá því árið 2009. Á síðasta ári nam aðsóknin tæplega 1,38 milljónum gesta samanborið við tæplega 1,65 milljónir gesta árið 2009. Gestir kvikmyndahúsanna hafa ekki verið færri en frá árinu 2005. Hagstofan birti í morgun uppfærðar tölur um aðsókn í kvikmyndahús á síðasta ári.
Aðsókn síðasta árs jafngildir því að hver landsmaður hafi séð almenna kvikmyndasýningu ríflega fjórum sinnum á árinu. Aðsókn á íbúa í einstökum landshlutum er mest á höfuðborgarsvæði eða 5,5. Í þeim landshlutum þar sem kvikmyndahús voru starfandi á síðasta ári var aðsóknin minnst á íbúa á Vesturlandi og á Norðurlandi vestra, eða innan við ein kvikmyndahúsaferð á íbúa innan landshlutans.
Frá árinu 2009 hefur kvikmyndahúsagestum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 249 þúsund gesti, eða um tæp 18 prósent. Öðru gegnir með aðsókn að kvikmyndasýningum utan höfuðborgarsvæðisins, en á síðasta jókst aðsóknin um ríflega 18 þúsund, eftir nær samfelldan samdrátt í aðsókn nokkur undanfarin ár.
Andvirði seldra aðgöngumiða á landinu öllu á síðasta ári nam 1.487 milljónum króna samanborið við 1.530 milljónir árið á undan. Hlutdeild innlendra kvikmynda í andvirði greiddra miða nam 12 af hundraði og hefur ekki verið hærri. Hlutur innlendra kvikmynda í aðsókn var tíu af hundraði, eða 138 þúsund sýningargestir. Bandarískar kvikmyndir höfðu langsamlega mesta hlutdeild á liðnu ári hvort heldur er miðað við aðsókn eða tekjur af miðasölu, eða 84 prósent og 82 prósent.
Á síðasta ári voru starfrækt 15 almenn kvikmyndahús með 41sýningarsal á níu stöðum á landinu. Sætaframboð var 6.799 og sýningar á viku að meðaltali um 800.