Það er mögulegt að Abu Hamza, sem flúði úr röðum ISIS-samtakanna og veitti fréttaritara The Economist í miðausturlöndum viðtal um innviði samtakanna, hafi ekki farið rétt með þjóðerni kvikmyndagerðarmannsins sem hann sagði að hefði gengið til liðs við samtökin og væri að búa til myndbönd fyrir þau.
Í bloggfærslu eftir fréttaritarann, Söruh Birke, sem birtist í fyrradag á heimasíðu New York Review of Books, var sagt að kvikmyndagerðarmaðurinn væri íslenskur og að hann væri ástæðan fyrir því að myndbönd sem ISIS-samtökin nota til að laða að nýja fylgismenn og áhorfendur í Vestrænum ríkjum væru orðin fagmannlega unnin.
Greint var frá færslunni í íslenskum fjölmiðlum, meðal annars Kjarnanum.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um fullyrðingar Abu Hamza segir Sarah Birke að það sé mögulegt að Hamza hafi gert mistök þegar hann sagði manninn vera af íslensku þjóðerni. Upplýsingarnar hafi verið hafðar eftir honum en ekki leitað annarrar staðfestingar.
ISIS-samtökin hafa vakið á sér mikla athygli, og valdi óhug, með því að setja myndbönd af liðsmönnum sínum vera að afhöfða vestræna gísla á netið.
Utanríkisráðuneytið veit ekki um neinn
ISIS stendur fyrir íslamskt ríki Íraks í Sýrlandi og samtökin voru upphaflega hluti af Al Kaída. Þau klufu sig síðar frá og þykja mun róttækari en Al Kaída. ISIS-samtökin hafa náð undir sig stórum svæðum í Írak og Sýrlandi og berjast hatramlega gegn þarlendum stjórnvöldum. Fjölmargir Evrópubúar hafa gengið til liðs við samtökin undanfarin misseri. Þau hafa vakið á sér mikla athygli, og valdi óhug, með því að setja myndbönd af liðsmönnum sínum vera að afhöfða vestræna gísla á netið.
Kjarninn greindi frá því í gær að utanríkisráðuneytinu væri ekki kunnugt um að Íslendingur starfi með eða hafi starfað með SIS-samtökunum með neinum hætti.